„Þetta kom okkur eiginlega ekki á óvart. Þetta var alltaf markmiðið, að komast á stórmót. Það gaf okkur auka hvatningu að liðum á EM í Frakklandi var fjölgað í 24. Það var draumur fyrir Íslendinga að sjá liðið sitt þar. Við skinum skært á EM og börðumst svo um sæti á HM 2018, vitandi að það væri möguleiki, að við gætum gert það,“ sagði Hörður í samtali við Goal.
Hann segir að liðsheildin sé helsti styrkleiki íslenska liðsins.
„Við erum ekki með Neymar eða Coutinho, bara leikmenn sem vinna saman. Þessi liðsandi gerði okkur kleift að vinna England á EM og mun fleyta okkur enn lengra,“ sagði Hörður.

„Ég var miðjumaður þegar ég byrjaði að spila heima. Þegar ég fór til Juventus sögðu þjálfararnir þar að ég yrði jafn góður varnarmaður. Svo ég færði mig aftar á völlinn,“ sagði Hörður sem æfði með mörgum frábærum leikmönnum hjá Juventus.
„Ég var að verjast [Alessandro] Del Piero! Þú lærir mikið á því. Ég horfði mikið á [Andrea] Pirlo og aukaspyrnurnar sem hann tók. Hann var með sérstakan stíl. Þegar ég var ungur reyndi ég að líkja eftir stílnum hans og Cristianos Ronaldo. En þegar ég byrjaði að spila með Pirlo þróaði ég með mér sömu tækni og hann.“
Hörður hrósar markverðinum Gianluigi Buffon og segir hann fínan náunga.
„Það er auðvelt að líka vel við Buffon. Hann er mjög auðmjúkur og aldrei með neinn hroka. Hann hikaði aldrei við að gefa þér ráð og hugsaði alltaf um liðið,“ sagði Hörður.