Erlent

Fráfarandi ráðherra sagður brátt á heimleið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons.
Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons. Nordicphotos/AFP
Saad al-Hariri, fráfarandi forsætisráðherra Líbanons, er frjáls ferða sinna og mætti ferðast til Frakklands hvenær sem er. Þetta sagði Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, í gær. Þá sagði hann fund sinn með Hariri í Sádi-Arabíu hafa verið góðan, Hariri væri heill heilsu og hann myndi senn snúa aftur til Líbanons.

Líbanskir ráðamenn hafa haldið því fram undanfarið að Hariri sé haldið gegn vilja sínum í Sádi-Arabíu og að Sádi-Arabar hafi neytt hann til að segja af sér á dögunum. Fæstir hafa gert það undir nafni en Michel Aoun forseti gerði það opinberlega á miðvikudag. Sádi-Arabar voru sagðir þrýsta á Hariri vegna lélegs gengis í baráttunni við Hezbollah-samtökin. Átök líbanska hersins við Hezbollah eru leppstríð í eins konar köldu stríði Sádi-Araba og Írans og styður síðarnefnda ríkið Hezbollah. Sádi-Arabar hafna þó ásökunum Líbana. Adel al-Jubeir utanríkisráðherra sagði til að mynda að Hariri væri staddur þar í landi af fúsum og frjálsum vilja.

Frakkar hafa reynt að miðla málum í þessari deilu og var Le Drian staddur í Sádi-Arabíu af því tilefni. BBC greinir frá því að Frakkar fari fram á að Hariri fái að ferðast til Líbanons til að tilkynna um afsögn sína í eigin persónu. Því eru Sádi-Arabar sagðir hafa hafnað og því virðist sem svo að samkomulag hafi náðst sem gengur út á að Hariri fái að ferðast til Frakklands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×