Innlent

Kirkjusóknir reknar með miklum hagnaði

Hallgrímskirkja skilaði 80 milljóna króna hagnaði í fyrra.
Hallgrímskirkja skilaði 80 milljóna króna hagnaði í fyrra.
Þjóðkirkjan Kirkjusóknir á landinu voru reknar með rúmlega 400 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Sóknargjöld kirkjusókna var um tveir milljarðar króna en aðrar tekjur um 900 milljónir króna. Hrein eign kirkjusókna landsins var í árslok um 30 milljarðar íslenskra króna. Ríkissjóður greiðir sóknum landsins sóknargjöld, sem er ákveðin fjárhæð á mánuði vegna hvers einstaklings innan kirkjunnar. Gjald þetta var á árinu 2016 rúmlega tveir milljarðar króna. Sóknum landsins ber að skila rekstraryfirliti til ríkisendurskoðunar á ári hverju. Af þeim 267 sóknum hafði Ríkisendurskoðun fengið til sín 234 ársreikninga til skoðunar. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata á þessu kjörtímabili, þykir ársreikningar þessara sókna um margt áhugverðir og þá einkum sérstakar sóknir. „Við fyrstu sýn er mjög áhugavert að skoða Hallgrímskirkjusókn þar sem hún skilar áttatíu milljóna króna hagnaði. Sóknin fær um 33 milljónir í sóknargjöld úr ríkissjóði en aðrar tekjur kirkjunnar nema um 270 milljónum króna. Hver er þörfin í því tilfelli til að veita þessari sókn sóknargjöld?“ spyr Helgi Hrafn.  „Þó við myndum taka sóknargjöldin alfarið frá kirkjunni væri kirkjan samt sem áður rekin með fimmtíu milljóna króna hagnaði,“ bætir Helgi Hrafn við. Fréttablaðið sagði frá því í byrjun árs að Þjóðkirkjan teldi sig hlunnfarna af ríkinu. Íhugaði biskup því alvarlega að stefna ríkinu fyrir vangoldin sóknargjöld. Taldi þjóðkirkjan ríkið seilast ofan í vasa kirkjunnar af mikilli hörku. Hundruð milljóna vantaði í sóknargjöld að mati kirkjuráðs þar sem innheimt sóknargjöld af sóknarbörnum skiluðu sér ekki að fullu til ríkis. Félögum í hinni íslensku þjóðkirkju hefur stöðugt fækkað á þessari öld og er svo komið að færri en sjö af hverjum tíu Íslendingum eru meðlimir í kirkjunni.-sa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×