Skoðun

Í fótspor annarra

Þór Rögnvaldsson skrifar
Það hefur löngum verið mér undrunarefni hvað sumir eiga erfitt með að setja sig í fótspor annarra – jafnvel mestu gáfumenn. Ég ætla að nefna dæmi um þetta.

Þann 17. ágúst s.l. birtist grein eftir Þorvald Gylfason í Fréttablaðinu sem bar titilinn: ,,Rússahatur? Nei, öðru nær.“ Hér fjallar Þorvaldur m.a. um viðtöl sem Oliver Stone átti við Pútín Rússlandsforseta og í því samhengi verður honum tíðrætt um þau orð Pútíns að eftir fall Sovétríkjanna hefði sjöundi hver Rússi skyndilega átt heima utan Rússlands.

Nú hlýtur sú spurning að vakna, hvort Þorvaldur Gylfason sé reiðubúinn til þess að skilja þetta vandamál frá sjónarmiði Rússa – sé reiðubúinn til þess að setja sig í fótspor þeirra. Dæmi hver fyrir sig – því að orð prófessorsins í þessu samhengi eru eftirfarandi: ,,En hvað með það? Er það vandamál? Er það vandamál í augum Þjóðverja að sjöundi hver þýzkumælandi maður býr í Austurríki og Sviss?“

Mann setur hljóðan við að lesa þetta. Að viti Þorvalds Gylfasonar og skoðanabræðra hans eru Rússar slíkt annars flokks fólk að það tekur því ekki einu sinni að svara umkvörtunum þeirra af neinni alvöru. Enda eru röksemdir prófessorsins ekkert annað en þvaður og kjaftæði – af verstu tegund. Austurríkismenn og Svisslendingar eru ekki Þjóðverjar, hafa aldrei verið Þjóðverjar[1] og munu aldrei verða Þjóðverjar. Hins vegar eru íbúar Austur-Úkraínu og Krímskaga Rússar, hafa alla tíð verið Rússar og munu alla tíð vera Rússar.

Alvarlegasta ógnin við heimsfriðinn er þetta Rússahatur Vesturveldanna (BNA og ESB). Vegna þess að ef ,,Við“ – þ.e. Vesturlandabúar – getum aldrei sett okkur í fótspor annarra þá skiljum við ekki 1) að ef íbúar Vestur-Úkraínu eiga rétt á því að ráða örlögum sínum sjálfir og ganga í ESB – þá eiga íbúar Austur-Úkraínu líka rétt á því að ráða örlögum sínum sjálfir og ganga ekki í ESB heldur sameinast Rússlandi, 2) að aðfarir Rússa á Krímskaga voru ekki landvinningastríð, heldur nauðsynleg ráðstöfun til þess að tryggja Rússum yfirráðin yfir Svartahafsflota sínum. Þetta vita ekki þeir sem vilja ekki vita.

Og svo er það mál málanna: Hvað mundi gerast ef ,,Við“ settum okkur í spor Norður-Kóreumanna? Jú – ,,Við“ mundum þá gera okkur grein fyrir því að ráðamenn í Norður-Kóreu eru fyrst og síðast lafhræddir – eðlilega og ekki að ástæðulausu. Þeir hafa komið sér upp kjarnorkuvopnum til þess að reyna að koma í veg fyrir að mesta herveldi allra tíma geri innrás í land þeirra. Þar af leiðir að það er í rauninni minnsta mál að lægja öldurnar á Kóreuskaga. Það eina sem til þarf er að bjóða Norður-Kóreumönnum frið; þ.e. að breyta vopnahléinu í friðarsamning – og, jú, svo líka hitt, að Bandaríkin og Suður-Kórea hætti vopnaskaki sínu við landmæri Norður-Kóreu.

Þessu er hægt að koma í kring á einni viku. Vandamálið er að Bandaríkjamenn vilja ekki frið. En hvers vegna ekki? Hvers vegna vilja Bandaríkjamenn ekki frið á Kóreuskaganum? Jú – ástæðan er sú að þeir vilja ekki setjast að sáttaborði með „ómennunum“ í Norður-Kóreu.

Mesta ógnin við friðinn stafar alltaf af því viðhorfi sem telur sig eiga einkarétt á mennskunni.

Alvarlegasta ógnin við heimsfriðinn er þetta Rússahatur Vesturveldanna (BNA og ESB).

[1] Ég undanskil árin 1938-45 sem Austurríkismenn vilja helst gleyma.

 

Höfundur er ellilífeyrisþegi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×