Innlent

Sameiningaráform leikskóla á ís vegna manneklu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Formaður skóla- og fræðsluráðs segir það algjört forgangsmál að bæta vinnuumhverfið í leikskólum. Öll önnur stefnumótun þurfi að taka mið af því markmiði að við viljum minnka álag, bæta vinnuskilyrði starfsfólks og bæta liðsandann. Fréttablaðið/Vilhelm
Formaður skóla- og fræðsluráðs segir það algjört forgangsmál að bæta vinnuumhverfið í leikskólum. Öll önnur stefnumótun þurfi að taka mið af því markmiði að við viljum minnka álag, bæta vinnuskilyrði starfsfólks og bæta liðsandann. Fréttablaðið/Vilhelm
„Það er forgangsmál hjá okkur að bæta vinnuumhverfið í leikskólaumhverfinu. Við teljum að það eigi að vera í algjörum forgangi og öll önnur stefnumótun þurfi að taka mið af því markmiði að við viljum minnka álag, bæta vinnuskilyrði starfsfólks og bæta liðsandann. Við teljum að sameiningar séu ekki gott innlegg inn í það við þessar aðstæður. Þess vegna viljum við taka allt slíkt af dagskrá,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og fræðsluráðs Reykjavíkurborgar.

Áformum um sameiningar leikskóla í Rimahverfi í Grafarvogi hefur verið slegið á frest. Tillaga var samþykkt á fundi skóla- og fræðsluráðs um að ráðast ekki í sameiningar við núverandi aðstæður.

Skúli Helgason
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði til að fundinum að horfið yrði alfarið frá fyrirliggjandi tillögum um sameiningu leikskóla i Reykjavík. Þess í stað verði reynsla metin af þeim leikskólasameiningum sem hafa átt sér stað í borginni frá árinu 2011. Sjálfstæðismenn vilja að úttekt verði gerð á málinu og metið hvaða áhrif sameiningarnar hafa haft á faglegt starf og starfsmannahald í þeim skólum sem þær náðu til.

Tillaga Kjartans var ekki afgreidd og við það er hann afar ósáttur.

„Ég held að það sé bara verið að fresta þessu við núverandi aðstæður af því að það eru að koma kosningar. Ég held að þau hafi fullan hug á að gera þetta en vilji bara bíða fram yfir kosningar með það,“ segir Kjartan við Fréttablaðið. Hann segir að eðlilegra hefði verið að sín tillaga hefði verið tekin fyrir fyrst þar sem hún gekk lengra. „Almenn fundarsköp fela í sér að sú tillaga sem gengur lengst sé tekin fyrir fyrst, þannig að ef hún er felld geti sá sem þá tillögu flytur stutt þá tillögu sem gengur skemur,“ segir Kjartan.

Hjá Reykjavíkurborg hefur verið unnið eftir því verklagi að þegar leikskólastjóri lætur af störfum, yfirleitt út af aldri, þá hafi menn skoðað möguleika á sameiningu leikskóla. Hins vegar hefur engin pólitísk stefna verið mótuð varðandi þetta.

„Við vildum draga hreina línu í sandinn og hafa alveg á hreinu að sameiningarmálin eru til skemmri tíma ekki hjálpleg til að draga úr álagi, heldur þvert á móti. Það fylgir því alltaf álag að gera skipulagsbreytingar. Stundum er þetta eitthvað sem menn verða að gera til að hagræða en sem betur fer er fjárhagur borgarinnar það góður að það er ekki knýjandi þörf á svona aðgerðum,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×