Erlent

Floti sjálfakandi leigubíla að koma á götur Phoenix

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tímamót urðu í vikunni í notkun sjálfakandi bíla þegar tilkynnt var í Bandaríkjunum um fyrstu leigubílastöðina þar sem tölvur með gervigreind hafa alfarið tekið yfir hlutverk bílstjóra. Fjallað var um málið í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Því hefur verið spáð að samgöngubylting sé handan við hornið með sjálfkeyrandi rafmagnsbílum. Svo hröð er þróunin að nú hefur verið tilkynnt um opnun fyrstu leigubílastöðvarinnar. Fyrirtækið Waymo, sem er í eigu Google, er komið með flota rafbíla af gerðinni Fiat Chrysler Pacifica, sem íbúum Phoenix-borgar í Arizona býðst að panta í gegnum app og fá ókeypis far með í tilraunaskyni á næstu mánuðum.

Floti sjálfakandi leigubíla frá Waymo, sem er á leið á götur Phoenix og nágrennis.Mynd/Úr kynningarmyndbandi Waymo.
Enginn verður við stýrið en fyrst um sinn mun starfsmaður frá Waymo einnig sitja í bílnum í öryggisskyni. Arizona-ríki var valið vegna þess að þar búið að laga löggjöf að notkun sjálfakandi bíla og þar eru hverfandi líkur á snjókomu og hálku. Tilraunir Waymo með bílinn í snjó og hálku standa reyndar yfir í Michigan þessa dagana. 

Og Frakkar ætla ekki að gefa sitt eftir í kapphlaupinu um þessa gervigreindartækni. Franska fyrirtækið Navya kynnti þennan bíl í vikunni, og sagði hann fyrsta sjálfstýrða leigubíllinn sem verði til sölu á almennum markaði.

Sjálfkeyrandi leigubíll Navya var kynntur í París í vikunni.Mynd/Reuters.
Í bílnum eru hvorki stýri, stjórnborð né fótstig, hann tekur sex farþega og nær allt að sjötíu kílómetra hraða. Hann er búinn yfir tuttugu skynjurum, myndavélum og ratsjám sem eiga að hjálpa honum að rata rétta leið án þess að rekast á aðra bíla. 

Frumsýning sjálfvirkrar rafskutlu í Las Vegas í vikunni endaði hins vegar með árekstri við stóran trukk á fyrstu klukkustund, án þess þó að nokkur meiddist. 

 

Áreksturinn í Las Vegas. Lögreglan segir sjálfakandi bílinn saklausan.Mynd/Reuters.
Lögreglan segir óhappið alfarið vörubílstjóranum að kenna, hann hafi bakkað utan í rafskutluna, sem stóð kyrr.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×