Innlent

Ný Einangrunarstöð fyrir holdanaut á Íslandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjörutíu fósturvísar úr norskum Aberdeen Angus holdagripum er nú komnir til landsins og bíða þess að vera komið fyrir í 36 kúm í nýrri einangrunarstöð á Stóra Ármóti í Flóa. Dýralæknar frá Noregi munu annast uppsetningu fósturvísana en nú er verið að leggja lokahönd við smíða einangrunarmiðstöðvarinnar og verður hún tekin í notkun á næstu vikum.

Bændasamtök Íslands, Búnaðarsamband Suðurlands og Nautgriparæktarmiðstöð Íslands (Nautís) sem eiga nýtt holdanautabú á Stóra Ármóti en um er að ræða fullkomna einangrunarstöð. Landið hefur verið girt með tvöfaldri girðingu sem er um 3,2 kílómetra að lengd.

Tilgangur stöðvarinnar er að byggja upp öflugan holdanautastofn af Aberdeen Angus holdanautum til að geta uppfyllt óskir og kröfur markaða um úrvals nautakjöt.

Sigurður Loftsson, formaður stjórnar Nautís, segir markmiðið einnig að styrkja stoðir greinarinnar í samkeppni við innflutning.

Vonast er til þess að fyrstu kálfarnir fæðist í ágúst 2018. Að lokinni níu mánaða einangrun væri svo hægt að selja þá til bænda á miðju ári 2019.

Sigurður segir þetta verkefni kosta talsvert og að mögulega sé heildarkostnaður verkefnisins um 150 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×