Erlent

Grænlendingar huga að gerð fyrsta þjóðvegarins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá höfuðstaðnum Nuuk. Yfir átta þúsund vélknúin ökutæki eru skráð á Grænlandi.
Frá höfuðstaðnum Nuuk. Yfir átta þúsund vélknúin ökutæki eru skráð á Grænlandi. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Grænlensk stjórnvöld undirbúa nú lagningu fyrsta þjóðvegar Grænlands, 170 kílómetra vegar milli aðalflugvallar landsins og næst stærsta bæjarins. Sagt var frá málinu í fréttum Stöðvar 2

Bílamergðin á Grænlandi virðist raunar með ólíkindum í ljósi þess að þetta næsta nágrannaland Íslands er án vegakerfis. Einu vegirnir eru í stærstu bæjunum og ná í mesta lagi fáeina kílómetra út frá þeim og engir tveir bæir eru tengdir saman með vegi.

Samt eru yfir átta þúsund vélknúin ökutæki á Grænlandi, þar af um 4.200 einkabílar, um 200 leigubílar og um 80 rútur og strætisvagnar. Vegir og götur Grænlands teljast alls 150 kílómetrar í öllu landinu, þar af eru 60 kílómetrar malbikaðir.

Vegurinn milli Sisimiut og Kangerlussuaq yrði 170 kílómetra langur. Ekki er ráðgert að honum verði haldið opnum að vetri.Grafík/Stöð 2.
En nú eru horfur á að Grænlendingar fái sinn fyrsta þjóðveg, 170 kílómetra langan malarveg milli bæjarins Sisimiut og flugvallarins í Kangerlussuaq, sem er einnig þekktur sem Syðri Straumfjörður. Þar er aðalflugvöllur Grænlands og sá eini sem býður upp á beint áætlunarflug á þotum til Danmerkur.

Eina tenging flugvallarins við aðrar byggðir Grænlands er með innanlandsflugi en nú gæti vegtenging bæst við. Grænlenska stjórnin og bæjaryfirvöld í Sisimiut undirrituðu í síðustu viku samning um að hefja undirbúning vegagerðar með því að setja á laggirnar vinnuhóp sem á að skila skýrslu um verkið fyrir 1. apríl í vor.

Flugvélar Air Greenland halda nú uppi samgöngum milli Sisimiut og Kangerlussuaq.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Bærinn Sisimiut er sá næsti stærsti á Grænlandi, með um 5.500 íbúa. Vegur milli bæjarins og flugvallarins er ekki aðeins talinn geta lækkað ferðakostnað íbúa heldur jafnframt boðið upp á ný tækifæri í ferðaþjónustu og ekki síst fiskflutningum, þegar opnast betri möguleikar fyrir Grænlendinga að koma ferskum fiski í flug á erlenda markaði. 

Flugvöllurinn í Kangerlussuaq er eini millilandaflugvöllur Grænlands með áætlunarflugi á þotum til Danmerkur.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Það er þó ekki gert ráð fyrir að þetta verði heilsársvegur þar sem veglínan liggur norðan heimskautsbaugs. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir

Grænlendingar byggja upp nýtt flugvallakerfi

Grænlensk stjórnvöld áforma stórfelldar flugvallaframkvæmdir sem gjörbreyta flugsamgöngum við landið og gætu styrkt tengsl Íslands og Grænlands enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×