Frá höfuðstaðnum Nuuk. Yfir átta þúsund vélknúin ökutæki eru skráð á Grænlandi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Grænlensk stjórnvöld undirbúa nú lagningu fyrsta þjóðvegar Grænlands, 170 kílómetra vegar milli aðalflugvallar landsins og næst stærsta bæjarins. Sagt var frá málinu í fréttum Stöðvar 2.
Bílamergðin á Grænlandi virðist raunar með ólíkindum í ljósi þess að þetta næsta nágrannaland Íslands er án vegakerfis. Einu vegirnir eru í stærstu bæjunum og ná í mesta lagi fáeina kílómetra út frá þeim og engir tveir bæir eru tengdir saman með vegi.
Samt eru yfir átta þúsund vélknúin ökutæki á Grænlandi, þar af um 4.200 einkabílar, um 200 leigubílar og um 80 rútur og strætisvagnar. Vegir og götur Grænlands teljast alls 150 kílómetrar í öllu landinu, þar af eru 60 kílómetrar malbikaðir.
Vegurinn milli Sisimiut og Kangerlussuaq yrði 170 kílómetra langur. Ekki er ráðgert að honum verði haldið opnum að vetri.Grafík/Stöð 2.En nú eru horfur á að Grænlendingar fái sinn fyrsta þjóðveg, 170 kílómetra langan malarveg milli bæjarins Sisimiut og flugvallarins í Kangerlussuaq, sem er einnig þekktur sem Syðri Straumfjörður. Þar er aðalflugvöllur Grænlands og sá eini sem býður upp á beint áætlunarflug á þotum til Danmerkur.
Eina tenging flugvallarins við aðrar byggðir Grænlands er með innanlandsflugi en nú gæti vegtenging bæst við. Grænlenska stjórnin og bæjaryfirvöld í Sisimiut undirrituðu í síðustu viku samning um að hefja undirbúning vegagerðar með því að setja á laggirnar vinnuhóp sem á að skila skýrslu um verkið fyrir 1. apríl í vor.
Flugvélar Air Greenland halda nú uppi samgöngum milli Sisimiut og Kangerlussuaq.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.Bærinn Sisimiut er sá næsti stærsti á Grænlandi, með um 5.500 íbúa. Vegur milli bæjarins og flugvallarins er ekki aðeins talinn geta lækkað ferðakostnað íbúa heldur jafnframt boðið upp á ný tækifæri í ferðaþjónustu og ekki síst fiskflutningum, þegar opnast betri möguleikar fyrir Grænlendinga að koma ferskum fiski í flug á erlenda markaði.
Flugvöllurinn í Kangerlussuaq er eini millilandaflugvöllur Grænlands með áætlunarflugi á þotum til Danmerkur.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.Það er þó ekki gert ráð fyrir að þetta verði heilsársvegur þar sem veglínan liggur norðan heimskautsbaugs.
Grænlensk stjórnvöld áforma stórfelldar flugvallaframkvæmdir sem gjörbreyta flugsamgöngum við landið og gætu styrkt tengsl Íslands og Grænlands enn frekar.