Sport

Þetta kostaði skólann þeirra 26 milljónir króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurstund hjá Auburn.
Sigurstund hjá Auburn. Vísir/Getty
Auburn háskólaliðið vann frábæran sigur á besta liði landsins, Alabama, í úrslitaleiknum um Járnskálina í ameríska háskólafótboltanum um helgina.

Auburn og Alabama eru miklir erkifjendur í háskólaboltanum og þetta var auk þess sigur í árlegum úrslitaleik skólanna um Iron Bowl og jafnframt sigur á liði sem hafði ekki tapað leik á tímabilinu.

Gleðin og ánægjan var því mikil hjá stuðningsmönnum Auburn sem réðu ekki við sig í leikslok og hlupu inn á völlinn til að fagna sigrinum.

Leikurinn fór fram á heimavelli Auburn en Jordan–Hare leikvangurinn tekur yfir 87 þúsund manns. Það var því nóg af fólki á vellinum eftir leikinn.

Eins og sést hér fyrir neðan þá bauð þetta upp á magnaðar myndir af sigurstund Auburn-liðsins.





Þetta hafði líka sínar afleiðingar fyrir Auburn háskólann sem fékk stóra sekt fyrir hegðun stuðningsfólks síns.

Það er stranglega bannað fyrir áhorfendur að koma inn á völlinn og á það jafnt við í leikslok sem og á meðan leik stendur.

Það mótmælir því enginn enda skapar það stórhættulegar aðstæður þegar svo mikið af hoppandi glöðu fólki er komið saman og öryggisverðir og lögreglan ræður ekki við neitt.

Auburn háskólinn fékk 250 þúsund dollara sekt fyrir vikið sem eru tæpar 26 milljónir íslenskra króna.

Þetta uppátæki kostaði því sitt en bjó til eftirminnilega sigurstund.





Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×