Viðskipti innlent

Stefna á opnun Kattakaffihússins fyrir jól

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson opna fyrsta íslenska kattakaffihúsið innan skamms.
Ragnheiður Birgisdóttir og Gígja Sara Björnsson opna fyrsta íslenska kattakaffihúsið innan skamms. Gígja Sara Björnsson
Gígja Sara Björnsson og Ragnheiður Birgisdóttir kattaeigendur og athafnakonur voru himinlifandi þegar Björt Ólafsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, undirritaði í lok október breytingu um hollustuhætti sem heimilar hunda og ketti á veitingastöðum. Þetta hafði mikla þýðingu fyrir konurnar því breytingin gerir þeim kleift að láta langþráðan draum raungerast.

Gígja og Ragnheiður hafa gengið með þann draum í maganum að opna svokallað kattakaffihús en þau njóta sívaxandi vinsælda erlendis. Á ferðum kvennanna um heiminn rákust þær á slík kaffihús og heilluðust mjög af hugmyndinni. Stefnan er sett á opnun fyrir jól en Kattakaffihúsið er staðsett á Bergstaðastræti 10a. Rýmið er að sögn Gígju, lítið og notalegt. Þetta kom fyrst fram á vef Mbl.is.



Hægt verður að ættleiða ketti Kattakaffihússins

Aðstandendur kaffihússins verða í nánu samstarfi við samtökin Villiketti og er kaffihúsið hugsað sem heimili fyrir ketti. „Það er alltaf verið að leita að litlum loðnum kettlingum og það eru bara svo margir kettir sem eru ennþá í heimilisleit þannig að þetta er hugsað þannig að fólk kynnist kisunni og kisan fólkinu og þá getur fólk ættleitt þá kisu sem því líst vel á,“ segir Gígja um hugmyndina að baki kaffihúsinu.

Segir mal hafa góð áhrif á fólk

Kettirnir eru ekki þeir einu sem njóta góðs af kaffihúsinu sem er í býgerð því Gígja segir að margar rannsóknir sýni fram á að mal hafi róandi og góð áhrif á fólk. Umgengni við ketti hafi heilandi áhrif. „Við viljum hafa þetta huggulegt og kósí,“ segir Gígja sem bendir á að skammdegið reynist mörgum afar erfitt og einmitt þá sé gott að eiga stað sem fólk geti heimsótt og heyrt mal.

Kisa Gígju, Sóleil, var tíður gestur á heimili Ragnheiðar, annars eiganda Kattakaffihússins, enda tók Ragnheiður alltaf vel á móti henni.Gígja Sara Björnsson
Gígja bendir á að kaffihúsið sé sérstaklega kjörið fyrir fólk sem býr í húsnæði þar sem dýrahald er með öllu bannað. „Þetta er hugsað til þess að fólk fái að hitta dýr,“ segir Gígja sem bendir á að það sé afar hentugt að börn kynnist fyrst um sinn dýrum á kaffihúsinu til þess að læra að umgangast þau.

Ragnheiður og Gígja kynntust fyrst í gegnum dóttur Ragnheiðar og vinkonu Gígju. „Við bjuggum í sama húsi, hún reddaði mér íbúð fyrir neðan hennar,“ segir Gígja en Sóleil, kötturinn hennar, var tíður gestur á heimili Ragnheiðar.

Í samtali við Vísi í september sagði Björt Ólafsdóttir: „Við höfum kannski verið að banna hluti sem ættu að vera undir sjálfsákvörðunarrétti einstaklinganna komið. En auðvitað skiptir máli að við horfum á öll sjónarmið í þessum efnum og vegum og metum hvort við séum að sinna almannahag. Hvað þetta varðar, hvað veitingastaði varðar, ef veitingamenn vilja bjóða gæludýr gesta á staðnum velkomin þá ætlum við einfaldlega að leyfa það.“

Breytingin á reglugerðinni gildir um alla einkarekna veitingastaði. Vilji rekstraraðilar opna dyr sínar fyrir ferfætlingum þurfa þeir að tilkynna það til heilbrigðisnefndar en ekki þarf að biðja um sérstakt leyfi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×