Eftirlitsaðilar í Suður-Kóreu og Bretlandi kanna nú hvort að tæknirisinn Google safni upplýsingum um staðsetningu Android-snjallsíma jafnvel þó að slökkt sé á staðsetningarþjónustu þeirra. Google segir að gögnin hafi aðeins verið notuð til að bæta þjónustu fyrirtækisins.
Vefsíðan Quartz greindi fyrst frá því að Android-símar söfnuðu saman upplýsingum um heimilisföng við nærliggjandi símsenda. Gögnin hafi verið send Google í nærri því ár. Forsvarsmenn fyrirtækisins fullyrða að gögnin hafi aðeins verið notuð til að bæta tilkynningar og afhendingu skilaboða til notenda og að þau hafi ekki verið vistuð á netþjónum þess.
Engu að síður hefur persónuverndarstofnun Suður-Kóreu kallað fulltrúa Google á teppið til sín. Samkvæmt þarlendum lögum er fyrirtækjum skylt að gera viðskiptavinum sínum ljóst hvað þau gera við persónuupplýsingar þeirra, að því er kemur fram í frétt CNN.
Persónuverndaryfirvöld á Bretlandi eru sögð kanna málið sömuleiðis.

