Innlent

Stór flutningabíll valt í stjörnuvitlausu veðri í Vatnsskarði

Kjartan Kjartansson skrifar
Þessi mynd var tekin í Vatnsskarði þegar aðstæður voru skaplegri en í kvöld.
Þessi mynd var tekin í Vatnsskarði þegar aðstæður voru skaplegri en í kvöld. Vísir/GVA
Ökumaður flutningabifreiðar sem valt út af þjóðvegi eitt í Bólstaðarhlíðarbrekku í Vatnsskarði í kvöld slapp ómeiddur. Stjörnuvitlaust veður er á svæðinu, að sögn lögreglunnar á Blönduósi, og hafa fleiri bílar farið út af veginum þar. Veginum hefur verið lokað.

Tilkynnt var um slysið kl. 20:24, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Blönduósi. Það átti sér stað ofarlega í brekkunni. Björgunarsveitarmenn úr Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð fluttu ökumanninn með sér þangað.

Vegagerðin hefur nú lokað þjóðveginum um Vatnsskarð en þar er mikil hálka og éljagangur, að sögn lögreglu. Björgunarsveitarmenn og vegfarendur hafa hjálpað ökumönnum annarra bíla sem hafa farið út af í kvöld.

Ekki er vitað um skemmdir á flutningabílnum sem var með tengivagn í eftirdragi. Lögregla gerir ráð fyrir að bíllinn verði fjarlægður um helgina.

Lögregla vill ennfremur koma þökkum á framfæri til björgunarsveitarmanna sem hafa aðstoðað í vonskuveðrinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×