Erlent

Sprenging heyrðist skömmu eftir að kafbáturinn hvarf

Samúel Karl Ólason skrifar
Umfangsmikil og alþjóðleg leit stendur nú yfir bæði í lofti og á láði.
Umfangsmikil og alþjóðleg leit stendur nú yfir bæði í lofti og á láði. Vísir/AFP
Sjóher Argentínu segir að hátt hljóð sem á að hafa greinst á skynjurum nokkrum klukkustundum eftir að sjóherinn missti samband við kafbát, sé „í samræmi við sprengingu“. Kafbáturinn ARA San Juan, hvarf á miðvikudaginn en 44 eru í áhöfn bátsins. Umrætt hljóð hefur verið í greiningu og niðurstaðan var kynnt nú fyrir skömmu.

Umfangsmikil leit að bátnum stendur nú yfir undan ströndum Argentínu en vonir um að finna áhöfnina á lífi dvína. Sérfræðingar telja að súrefnisbirgðir kafbátsins ættu að vera við það að klárast. Leitaraðilar eru því í kapphlaupi við tímann.

Vísir/GraphicNews
Systir eins áhafnarmeðlims San Juan sagði BBC að henni liði eins og hún væri að bíða eftir líki.

Sjá einnig: Tilkynntu vélarbilun í síðustu skilaboðum sínum

Sjóher Bandaríkjanna, sem tekur þátt í leitinni, greindi hlut á botni Atlantshafsins nærri þeim stað þar sem kafbáturinn var þegar áhöfn hans sendi síðast frá sér skilaboð. 

Sky News segir frá því að eftir greiningu hafi komið í ljós að umræddur hlutur væri ekki kafbáturinn.

Við byrjun leitarinnar gerði slæmt veður leitaraðilum erfitt fyrir. Veður hefur þó verið gott undanfarna daga en búist er við því að það muni versna á næstu dögum.

Fréttin var uppfærð með tilliti til niðurstaðna úr greiningu hljóðsins sem heyrðist. Áður var fréttin um að hljóðið væri til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×