Erlent

Trump vill losa sig við Tillerson

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Trump og Tillerson virðast ekki eiga skap saman.
Trump og Tillerson virðast ekki eiga skap saman. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, leggur þessa dagana drög að uppsagnarbréfi utanríkisráðherra síns, Rex Tillerson. Samband þeirra hefur stirðnað á undanförnum mánuðum og er unnið að áætlun að bola honum úr embætti. New York Times greinir frá. 

Talið er að Mike Pompeo, framkvæmdastjóri CIA, muni taka við embættinu. Í kjölfarið myndi öldungadeildarþingmaðurinn Tom Cotton frá Arkansas taka við sem framkvæmdastjóri CIA af Pompeo en samband hans og Trump er talið afar gott.

Ýmsar vísbendingar hafa komið í ljós um að forsetinn og utanríkisráðherrann eigi ekki skap saman og hefur verið litið á það sem tímaspursmál hvenær sá síðarnefndi muni víkja úr embætti. Utanríkisstefna þeirra virðist ekki samræmd.



Auk þess komu fram fréttir þess efnis að Tillerson hefði kallað Trump „fábjána“. Tillerson neitaði því ekki, aðspurður hvort það reyndist satt. Orðrómar um að Tillerson myndi segja af sér urðu svo háværir að boðað var til blaðamannafundar í byrjun október þar sem hann sagðist ekki hafa það í hyggju að segja af sér.



Talið var að Tillerson myndi allavega sitja sem ráðherra út árið en fjölmiðlar vestanhafs greina nú frá því að Trump gæti látið til skarar skríða hvenær sem er og því tvísýnt hvort utanríkisráðherrann endist út þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×