Innlent

Borgaryfirvöld reyna að minnka svifryksmengun með rykbindingu

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Borgaryfirvöld reyna nú að minnka umferðarmengun í borginni með því að rykbinda helstu umferðaræðar. Gildi svifryks hafa mælst há undanfarna tvo daga, en greina má slykju köfnunarefnisdíoxíðs allt í kringum höfuðborgarsvæðið.

Gildin mælast að jafnaði hæst við Miklubraut, Hringbraut og Grensásveg, en í gær náði hálftímagildi svifryks við síðastnefndu götuna á tímabili 140 míkrógrömmum á rúmmetra. Sólarhrings heilsuverndarmörk eru aftur á móti um 50 míkrógrömm á rúmmetra. Heilbrigðisfulltrúi hjá Reykjavíkurborg segir ástandið nokkuð algengt á þessum árstíma, þá sérstaklega þegar lygnt er og þurrt í veðri. Aftur á móti sé nú reynt að leysa vandann að einhverju leyti með svokallaðri rykbindingu.

Rykbinding er aðferð sem ekki hefur verið beitt í borginni síðan 2010, en Svava segir að nú hafi verið ákveðið í samstarfi við Vegagerðina og fleiri viðbragðsaðila að reyna slíkt í auknum mæli. Hún segir markmiðið að slík aðgerð hafi eins konar forvarnaráhrif og gripið sé inn í áður en mengunin nái hættumörkum. Hún segir nagladekkjanotkun borgarbúa vissulega auka mengunina talsvert, en meginorsök vandans sé einfaldlega mikill umferðarþungi á götum borgarinnar. Besta leiðin til að halda henni í skefjum sé því að nota bílinn minna og notast í auknum mæli við almenningssamgöngur eða vistvænni ferðamáta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×