Erlent

Forsætisráðherra Póllands segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 54 ára Beata Szydlo hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður Póllands á síðustu árum.
Hin 54 ára Beata Szydlo hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður Póllands á síðustu árum. Vísir/AFP
Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, tilkynnti í gærkvöldi um afsögn sína, nokkrum klukkustundum eftir að hafa staðið af sér vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á pólska þinginu.

Fjármálaráðherrann Mateusz Morawiecki mun taka við embætti forsætisráðherra landsins.

Fréttaritari BBC segir að hávær orðrómur hafi að undanförnu verið uppi um að Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stjórnarflokksins Laga og réttlætis (PiS), vildi skipta um mann í brúnni. Var rætt um að Kaczynski vildi annan til að leiða flokkinn fram að næstu þingkosningum sem fyrirhugaðar eru að tveimur árum liðnum.

Mateusz Morawiecki hefur gegnt embætti fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra Póllands síðustu tvö árin.Vísir/AFP
Yfirgnæfandi meirihluti pólskra þingmanna greiddu atkvæði gegn vantrauststillögunni. Þrátt fyrir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar greindi Beata Mazurek, talsmaður Laga og réttlætis, frá því í gærkvöldi að miðstjórn flokksins hafi tilnefnt Morawiecki sem nýjan forsætisráðherra.

Hin 54 ára Szydlo hefur verið einn vinsælasti stjórnmálamaður Póllands á síðustu árum. Hún tók við embætti forsætisráðherra árið 2015.

Morawiecki hóf þátttöku í stjórnmálum árið 2015, en hafði áður starfað innan bankageirans. Auk þess að gegna embætti fjármálaráðherra var hann aðstoðarforsætisráðherra landsins.

Pólska þingið mun kjósa um Morawiecki í næstu viku, en vegna mikils þingstyrks PiS er einungis um formsatriði að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×