Viðskipti innlent

Leiðir gullgrafaraævintýri á Grænlandi

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Eldur Ólafsson.
Eldur Ólafsson. Baldur Kristjánsson
Kanadíska gullleitarfélagið Alopex Gold birti á dögunum skýrslu sem sýnir niðurstöður borunar sem fram fór í Nalunaq-námunni í suðurhluta Grænlands í sumar. Forstjóri fyrirtækisins og einn stofnenda þess er Eldur Ólafsson, 32 ára jarðfræðingur sem búsettur er á Íslandi. Fyrirtækið hefur undir höndum leyfi fyrir þremur gullnámum á Grænlandi – Nalunaq, Vagar og Tartoq. Hann er með lítið skrifstofupláss í Reykjavík, en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Toronto í Kanada. Mestum tíma ver hann erlendis í þágu fyrirtækisins, þá einkum í markaðsstörfum.

Að loknu grunnnámi í jarðfræði við Háskóla Íslands hóf Eldur störf fyrir Geysi Green Energy árið 2008. Síðar meir kom hann að stofnun Orku Energy, en hlutverk hans var að stækka umsvif fyrirtækisins í Kína með því að færa út kvíarnar og fjölga veitum úr einni borg í þrjár þar í landi. Árið 2012 sagði hann skilið við Orku Energy og var hann búsettur í London þegar hann ákvað að skoða Grænland og auðlindir þess sem fjárfestingarmöguleika.

„Það sem við gerðum var að fá til liðs við okkur „mining ráðgjafafyrirtæki“ sem heitir SRK Consulting og er mjög stórt á sínu sviði. Fljótlega eftir það ákváðum við að við vildum rannsaka gull og auðlindir sem væru með hátt hlutfall af því efni sem við vinnum á hvert tonn,“ segir Eldur.

Hófu starfsemi í Nalunaq-námu

Alopex fékk leyfi fyrir rannsóknum og framkvæmdum í Nalunaq-námu sem er í dag ein af lykileignum félagsins. Um er að ræða námu sem áður var í höndum annarra eigenda en fór í greiðslustöðvun árið 2013. Í þeirri eign var stór sjóður frá lánveitanda sem einnig hafði verið eigandi eigið fjárs.

„Við sömdum við þá að taka á okkur ákveðnar rannsóknir gegn því að fá hlutafé með því að sýna fram á að það væri ennþá töluvert mikið af mögulegum auðlindum um og í kringum þessa námu.“

Náman er neðanjarðar og fór starfsemi sumarsins í að bora holur og komast að því hvort möguleiki væri á 1,2 milljóna únsa framhaldi á aðalgullæð sem þegar hafði verið fundin.

Árin 2015 og 2016 fóru fram boranir til þess að finna aðalgullæðina, en hún er meter að þykkt og hallar um það bil 35 gráður upp í fjallið. Vinnan fór upphaflega fram ofarlega í fjallinu, í um það bil 700-1300 metra hæð en í sumar fór mest vinna fram í borun dalsbotnsins og kom það í ljós að æðin heldur í raun áfram undir dalinn.

Niðurstöðurnar auka fyrir vissu möguleikann að 1,2 milljónir únsa af gulli séu til staðar en eins og staðan er í dag inniheldur náman 263 þúsund únsur af gulli.

Um aldamótin fór í gegn löggjöf á Grænlandi um námurannsóknir sem gerði það að verkum að auðvelt var að sækja um leyfi og skýrt var hvar hvernig skyldi vinna í þeim geira. Umhverfislöggjöfin í tengslum við þessi lög er að sama skapi góð en einnig er tekið tillit til fólksins sem býr á námusvæðunum. Eftir þetta fór töluvert fjármagn í námugeirann og hafa rannsóknir aukist á síðustu tíu árum eða svo.

Eldur á vettvangi á Nalunaq-námusvæðinu.Baldur Kristjánsson
Næstu skref eru Vagar og Tartoq

Stór hluti framkvæmdanna á vegum Alopex sem fram fór í sumar var í Nalunaq en fyrirtækið er einnig með leyfi á námurannsóknarsvæðunum Vagar og Tartoq.

„Við erum að sinna skrifborðsvinnu, ef svo má að orði komast, fyrir Vagar núna og erum í raun með tuttugu „target“ um það hvar við ætlum að bora og svo framvegis. Það sem er sameiginlegt með þessum þremur námum er að þær innihalda allar gullæðar sem koma upp á yfirborð og í þeim er oft á tíðum hátt hlutfall af gulli á hvert tonn sem við erum að rannsaka og er það öðruvísi en víðast hvar í heiminum.“

Fáar rannsóknir og lítil nýting gullauðlindarinnar felur í sér stór tækifæri segir Eldur.

„Þarna hefur ekki verið rannsakað mikið. Við náum að kaupa þessi þrjú leyfi og skrá þau saman á markað. Við erum nú eina skráða gullfélagið á þessum markaði [á Grænlandi],“ en hann tekur einnig fram að til séu önnur félög sem sinna svipuðum rannsóknum á sviði annarra málmtegunda.

Það störfuðu 4-5 íslenskir starfsmenn í framkvæmdunum hjá Alopex í Nalunaq í sumar og segir Eldur það koma sér vel því þeir starfi vel. Hann segir tímafrekt að þjálfa starfsfólk í greininni. Námuvinnsla sé mjög sérhæft verkefni. Hann segir hag fyrirtækisins liggja í því að ráða heimamenn, það er Grænlendinga, til þess að starfa í námunum. Það sé einkum vegna kostnaðar en einnig hjálpi það til við uppbyggingu greinarinnar þar í landi.

Hann segir að rannsóknir og framkvæmdir Alopex hafi fengið góðar viðtökur.

„Við höfum fengið jákvæðar viðtökur. Greiningarskýrslur koma vel út og það er töluverður áhugi,“ segir Eldur en bendir jafnframt á að fyrirtækið flýti sér hægt.

„Við vinnum þetta bara eitt skref í einu. Það hefur gengið ágætlega og við vonum að þetta haldist þannig áfram.“



Hér að neðan má sjá myndband sem unnið er í Google Earth og sýnir á hvaða svæðum er unnið í Nalunaq.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×