Lífið

Nú geta allir fylgst með Hrafnistu á Snapchat

Guðný Hrönn skrifar
Núna getur hver sem er fengið innsýn í starfið á Hrafnistu í gegnum Snapchat.
Núna getur hver sem er fengið innsýn í starfið á Hrafnistu í gegnum Snapchat.
Hjúkrunarheimilið Hrafnista er byrjað að nota Snapchat og er ef til vill fyrsta hjúkrunarheimili Evrópu til að taka þann samfélagsmiðil í notkun. „Við höfum það ekki staðfest en við vitum ekki um neitt hjúkrunarheimili sem er að nota Snapchat,“ segir Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði.

Spurð út í hvernig þetta kemur til segir Árdís: „Í raun og veru erum við búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í smá tíma. Við erum náttúrulega gríðarlega stórt fyrirtæki og við viljum nýta tæknina til að ná til sem breiðasts hóps fólks.“

„Aðalmarkmiðið er að kynna starf Hrafnistu frá ólíkum sjónarhornum og gefa starfsfólkinu tækifæri til að sýna hvað felst í starfinu.“

Eins og áður sagði opnaði Hrafnista Snapchat í gær þannig að það er ekki komin mikil reynsla á verkefnið. En Árdís segir planið vera þannig að hver deild eða starfsmannahópur hafi umsjón með Snapchat í viku í senn. „Þá geta þau sýnt hvað þau eru að gera í vinnunni, frá viðburðum og svo framvegis. Það eru um 1.200 starfsmenn hjá okkur á sex Hrafnistuheimilum. Þannig að starfsmenn Hrafnistu geta líka sýnt öðrum starfsmönnum hvernig þeir gera hlutina. Og þetta er í raun fyrir alla sem hafa áhuga á að kynnast starfinu og ekki síst fyrir vini og ættingja íbúa Hrafnistu og íbúana sjálfa,“ útskýrir Árdís.

Hún segir verkefnið fara vel af stað og nú þegar eru um 150 fylgjendur að fylgjast með Hrafnistu á Snapchat.

Spurð út í hvernig íbúar Hrafnistu taki í Snapchat-verkefnið segir Árdís: „Þeim finnst þetta skemmtilegt og fólk er yfirleitt til í að vera með. Þau eru voða spennt fyrir þessu. En það eru auðvitað ákveðnar reglur um hvernig má nota Snapchat inni á Hrafnistu. Við gerum ekkert án samþykkis fólks og virðum einkalíf þess.“

Árdís mælir að lokum með að allir sem hafa áhuga á að fá innsýn í starf Hrafnistu bæti HrafnistaDAS á Snapchat.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.