Sport

Conor vann mig þegar við vorum krakkar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þessir frábæru bardagakappar börðust síðast. Það væru eflaust margir til þess að sjá þá berjast í dag.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þessir frábæru bardagakappar börðust síðast. Það væru eflaust margir til þess að sjá þá berjast í dag. vísir/getty
Fjaðurvigtarmeistarinn magnaði Max Holloway virðist vera meira en tilbúinn að mæta fyrrum fjaðurvigtarmeistaranum, Conor McGregor.

Þeir mættust í búrinu árið 2013 og þá hafði Conor betur. Allir þekkja hvað gerðist síðan hjá Conor en uppgangur Holloway hefur einnig verið magnaður.

Hann hefur ekki tapað síðan gegn Conor og er búinn að vinna tólf bardaga í röð. Þar af tvo í röð gegn Jose Aldo sem var ósigraður í 10 ár áður en Conor rotaði hann með stæl.

Eftir að Holloway hafði klárað Aldo setti Conor mynd af Holloway með glóðaraugu á samfélagsmiðla þar sem hann sagðist sakna þessara gleraugna. Holloway svaraði með því að Conor væri tveggja ára gamlar fréttir.

„Þegar hrekkjusvínið togar í hárið á þér þá lemurðu hann í andlitið. Þetta var fyndið og Conor er fyndinn gaur. Ég hló en það er ljóst að hann er að hugsa um mig,“ sagði Holloway.

„Ég er meistarinn og hef komið stöðugleika á þennan þyngdarflokk. Ég hugsa um flokkinn og reyni að bera virðingu fyrir öðrum. Það tók mig tíu bardaga að fá að keppa um bráðabirgðatitil og ellefu til þess að vinna alvöru beltið.“

Holloway gefur lítið fyrir tapið gegn Conor á sínum tíma.

„Hann vann mig þegar við vorum krakkar að keppa á Fight Night. Við fengum lítið borgað og hann virðist vera ánægður að halda þessum sigri á lofti. Þannig er hann bara. UFC hefur samt beðið mig um að mæta Conor í hans þyngdarflokki en ég veit ekkert hvað hann vill gera.“





MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×