Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir stefna í að pakkaferðirnar fari í sölu í kvöld. Það sé planið.

Sjá einnig:Allt sem þú þarft að vita fyrir dráttinn
„Það sem við erum búnir að ákveða er að við fljúgum eina ferð að minnsta kosti á alla leikstaðina. Ferðirnar fara í sölu eins fljótt og hægt er eftir dráttinn.“
Um er að ræða tveggja sólarhringaferðir þar sem flogið verður út daginn fyrir leik og heim daginn eftir. Guðjón segir flugtímann til Rússlands ólíkan eftir því hvaða borgir um ræðir, enda Rússland risastórt land. Flugtíminn sé á bilinu fjórir til sex tímar, ekki ósvipað flugum til austurstrandar Bandaríkjanna.

Um er að ræða 183 sæta vélar Icelandair og því ljóst að verði ein ferð farin á hvern leik, eins og staðan er núna, verða aldrei fleiri en 549 miðar í boði fyrir stuðningsmenn Íslands.
Líkt og í Frakklandi 2016 mun fjöldi Íslendinga ferðast til Rússlands á eigin vegum, t.d. með flugi frá Íslandi til meginlands Evrópu og þaðan áfram til Rússlands. Mikill áhugi virðist vera á keppninni meðal landsmanna enda í fyrsta skipti sem landsliðið kemst í lokakeppni HM.
Miðasala er þegar hafin en hún fer fram í nokkrum þrepum. Næsta þrep miðasölunnar hefst þann 5. desember en öll löglega sala miða fer fram á heimasíðu FIFA.