Innlent

Erfiður jólamánuður blasir við mörgum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Dæmi um mat og aðrar nauðsynjavörur sem Mæðrastyrksnefnd úthlutaði þessa vikuna.
Dæmi um mat og aðrar nauðsynjavörur sem Mæðrastyrksnefnd úthlutaði þessa vikuna. vísir/vilhelm
Í þessari viku sóttu 350 manns um aðstoð hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og um hádegisbil á miðvikudaginn hópaðist hluti þeirra saman við húsakynni nefndarinnar í Hátúni. Fólkið var á öllum aldri, nokkur börn voru þar með foreldrum.

Fyrir utan biðu um tíu til tólf manns í kuldanum á meðan annar álíka stór hópur sótti mat fyrir innan.

Palli beið fyrir utan. Hann er 54 ára gamall. Hann fær endurhæfingarlífeyri eftir að hafa fengið hjartaáfall í vinnunni í apríl árið 2016. Hann segist hafa dáið í 11 mínútur. „Ég hef komið hingað í fimm ár,“ segir Palli. „Ég kem oftast seinna í mánuðinum og frekar á sumrin, þegar það eru sumarfrí. Þá eru börnin meira heima.“

Palli er nefnilega níu barna faðir. Fimm barna hans eru uppkomin og eru flutt að heiman. Hin fjögur eru enn á heimilinu og á hans framfæri. Konan hans er í fæðingarorlofi. Palli segir að samanlagðar tekjur þeirra séu rúmlega hálf milljón á mánuði. Þau eiga þrjú yngstu börnin saman en þau eru á aldrinum eins til fjórtán ára. Þau búa öll sex í félagsíbúð í Reykjavík.

Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur
„Eftir að búið er að borga leigu og aðrar nauðsynjar eigum við kannski 60 til 80 þúsund krónur eftir fyrir annað,“ segir Palli en neysluviðmið velferðarráðuneytisins gerir ráð fyrir að heildarútgjöld fjölskyldu með fjögur börn á framfæri sé 676.535 krónur á mánuði, án húsnæðiskostnaðar. „Það er fast haldið í þennan. Það má ekkert koma upp á,“ segir Palli.

Fyrir innan sér Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, um að úthluta mat og öðrum nauðsynjum og nýtur liðsinnis sjálfboðaliða. Mataraðstoðin er hugsuð þannig að hún eigi að duga í heila viku. Þar er yfirleitt að finna brauð, mjólk, jógúrt og eina stóra máltíð, sem inniheldur þá einhverja kjötvöru. Ýmsar aðrar nauðsynjavörur, eins og hreinlætisvörur, er einnig að fá. Stundum er boðið upp á afþreyingu eins og bíó- eða leikhúsmiða en oftast er það um jólin. Jólasöfnun nefndarinnar stendur nú yfir.

„Við þurfum nærri 30 milljónir fyrir því sem við erum að fara að gera, með matarinnkaupum og öðru. Við þurfum að fá styrki fyrir því. Það tókst í fyrra og við erum að vona að það muni takast aftur í ár,“ segir Anna.

Jólaúthlutun nefndarinnar fer fram 20. desember. Nú þegar hafa að minnsta kosti 700 einstaklingar og fjölskyldur skráð sig fyrir úthlutun. „Við erum að búast við að þetta endi í um eitt þúsund manns,“ segir Anna en margir af þeim sem mættu í úthlutun á miðvikudag ætluðu einnig að skrá sig í jólaaðstoðina.

Heimilisbrauð var til að mynda í boði.vísir/vilhelm
Anna segir að töluverð fækkun sé frá því árin áður. Árið 2015 sóttu 400 til 500 manns sér aðstoð í hverri viku. Fólk á öllum aldri leitar til þeirra. „Þú verður að vera orðinn 18 ára til að sækja slíka aðstoð en þetta er allt upp í áttrætt fólk sem leitar til okkar. Svo er að koma mikið af ungu fólki sem hefur kannski eitthvað misstigið sig.“

Á meðal þeirra sem biðu eftir úthlutun á sama tíma og Palli voru tvær ungar konur. Báðar hafa komið til Mæðrastyrksnefndar annað slagið í eitt og hálft ár. Þær vildu síður koma fram undir nafni. Við skulum kalla þær Jónínu og Fríðu. Þær eru báðar 27 ára og búa í Kópavogi. Þær segja mun erfiðara að fá slíka aðstoð í Kópavogi en í Reykjavík og það geti skipt öllu máli að geta sótt sér slíka aðstoð, þó það sé ekki nema einstaka sinnum. „Við erum heppnar ef við náum 200 þúsund krónum á mánuði í tekjur“ segir Jónína.

Fríða, á eitt barn og er einstæð móðir. Hún er utan af landi en býr í félagsíbúð á vegum Kópavogsbæjar. Hún á rétt á endurhæfingarlífeyri og sagði oft erfitt að ná endum saman. „Ég hætti í sambandi fyrir tveimur árum sem setti mig í skuldasúpu. Ég er enn að ná mér upp eftir það.“

Matarpokinn sem Palli fékk hjá Mæðrastyrksnefnd þessa vikuna.vísir/vilhelm
Jónína er þriggja barna móðir og er á almennum leigumarkaði. Aðspurð hvernig hún fari að því að ná endum saman segist hún vera „bara heppin að eiga góða að. Annars myndi dæmið ekki ganga upp.“

Þær eru báðar í námi hjá Hringsjá sem er náms- og starfsendurhæfing fyrir fólk sem vill komast aftur út á vinnumarkaðinn eftir hlé vegna sjúkdóma, slysa eða annarra áfalla. Fríða sagði félagsráðgjafann hjá Hringsjá hafa reynst þeim sérstaklega vel og hafi bent þeim á úrræði Mæðrastyrksnefndar og aðstoðað þær við að komast að þar.

„Hún hjálpaði okkur að skilja að það er engin skömm í því að leita sér aðstoðar. Það skipti miklu máli. Ég grét á kvöldin áður en ég vissi af þessum úrræðum.“ segir Fríða.

Þær segjast báðar aðeins sækja sér slíka aðstoð í ítrustu neyð, en hafi verið mjög fegnar þegar þeim var bent á þetta úrræði.

„Við förum kannski einu sinni á tveggja mánaða fresti. En alltaf í desember. Það er alltaf erfiður mánuður,“ segir Fríða. Þær eru báðar skráðar í jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. „Jólin eru að koma og þetta hjálpar mörgum.“ segir Jónína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×