Innlent

Verkfalli flugvirkja frestað um fjórar vikur

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fulltrúar Icelandair og flugvirkja áður en fundur hófst í gær. Eftir það var fjölmiðlafólki vísað á dyr þar sem nærvera þess þótti hafa truflandi áhrif á fundarhöld. Fundarmenn vörðust allra frétta af gangi mála.
Fulltrúar Icelandair og flugvirkja áður en fundur hófst í gær. Eftir það var fjölmiðlafólki vísað á dyr þar sem nærvera þess þótti hafa truflandi áhrif á fundarhöld. Fundarmenn vörðust allra frétta af gangi mála. vísir/eyþór
Samninganefndir Icelandair, Samtaka atvinnulífsins og Flugvirkjafélags Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning klukkan fjögur í nótt og var verkfalli flugvirkja hjá Icelandair frestað um fjórar vikur.

Fjölmiðlar fengu ekki að vera viðstaddir undirritunina.

Í örstuttum skilaboðum til fréttamanns sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins það mikinn létti að samningar hafi náðst í þessari krefjandi kjaradeilu.

„Samningurinn verður nú borinn undir félagsmenn í Flugvirkjafélaginu til atkvæðagreiðslu,“ sagði Halldór.

Í tilkynningu Icelandair til Kauphallarinnar segir að kjarasamningurinn sem undirritaður var í nótt gildi til 31. desember 2019. Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands sagði í stuttu samtali að hann telji nýja samninginn hafa vigt en nú sé það félagsmanna að greiða atkvæði um hann. 

Samninganefndir voru boðaðir til Ríkissáttasemjara klukkan fjögur í gær og hafa fundarhöld staðið í tólf tíma. Fyrir fundinn var samninganefnd flugvirkja ekki bjartsýn á árangur.

Magnús Jónsson, aðstoðarríkissáttasemjari, beindi þeim tilmælum til fjölmiðla í gær að þeir væru ekki í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gærkvöldi og í nótt þar sem hann taldi nærveru þeirra hafa truflandi áhrif á viðræðurnar sem voru á viðkvæmu stigi. Síðan fundir hófust í gær bárust litlar upplýsingar þar til nú, þegar tilkynnt var að skrifað hefði verið undir.

Icelandair hefur þegar aflýst þremur ferðum í fyrramálið; til Brussel, París Orly og Hamborgar.


Tengdar fréttir

Nær öllum ferðum Icelandair til Ameríku aflýst

Icelandair hefur neyðst til þess að fresta nær öllum flugferðum flugfélagsins til Bandaríkjanna og Kanada sem voru á áætlun í dag vegna verkfalls flugvirkja félagsins. Samningafundi deiluaðila var slitið í nótt án árangurs.

Verkfall flugvirkja Icelandair hafið

Verkfall flugvirkja hjá Icelandair hófst klukkan sex í morgun. Fundi samninganefnda flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins lauk í nótt án árangurs.

Fundi slitið án árangurs

Árangurslitum fundi samninganefnda flugvirkja og Icelandair var slitið klukkan 4 í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×