Erlent

Ramaphosa nýr leiðtogi ANC

Atli Ísleifsson skrifar
Cyril Ramaphosa, varaforseti Suður-Afríku.
Cyril Ramaphosa, varaforseti Suður-Afríku. Vísir/AFP
Cyril Ramaphosa, varaforseti Suður-Afríku, hafði betur gegn Nkosazana Dlamini-Zuma í baráttunni um hver verði næsti leiðtogi stjórnarflokksins ANC. Líklegt þykir að Ramaphosa verði næsti forseti Suður-Afríku og taki við embættinu af Jacob Zuma að loknum kosningum 2019.

Flokksþing ANC stendur nú yfir og var greint frá niðurstöðu leiðtogakjörsins nú síðdegis.

Dlamini-Zuma er fyrrverandi utanríkisráðherra Suður-Afríku og framkvæmdastjóri Afríkusambandsins, auk þess að vera fyrrverandi eiginkona Zuma forseta. Zuma hafði lýst yfir stuðningi við fyrrverandi eiginkonu sína.

Zuma mun árið 2019 hafa setið tvö kjörtímabil og getur samkvæmt stjórnarskrá ekki sóst eftir endurkjöri. Stuðningsmenn Ramaphosa höfðu lýst yfir áhyggjum af því að stuðningsmenn Dlamini-Zuma myndu stunda atkvæðakaup á flokksþinginu til að tryggja henni sigurinn.

ANC hefur verið allsráðandi í suðurafrískum stjórnmálum um árabil. Hinn 65 ára Ramaphosa er einn auðugasti kaupsýslumaður Suður-Afríku, en hann var virkur í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnu suðurafrískra stjórnvalda á sínum tíma. Hann hefur áður verið leiðtogi verkalýðshreyfingar í landinu og á tímabili var litið á hann sem mögulegan arftaka Nelson Mandela í embætti forseta.

Hann beið þó lægri hlut fyrir samflokksmanni sínum, Thabo Mbeki, og yfirgaf þá pólitíkina og hellti sér þá út í fjárfestingar. Hann auðgaðist mikið og sneri svo aftur í stjórnmálin árið 2012. Tveimur árum síðar var hann gerður að varaforseta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×