Gylfi fagnaði ekki glæsimarki

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði glæsilegt mark á móti fyrrum liðsfélögum sínum í Swansea þegar þeir mættu á Goodison Park.

Gylfi fagnaði ekki marki sínu af virðingu við sitt gamla félag, en það gerðu liðsfélagar hans hins vegar, umkringdust Gylfa og fögnuðu honum, bæði fyrir markið glæsilega og þar sem markið kom Everton yfir í leiknum.

Fyrr hafði Leroy Fer komið gestunum yfir í fyrri hálfleik eftir varnarmistök Ashley Williams. Markið var tíunda mark Swansea á tímabilinu, en fyrir leikinn var velska liðið eina liðið í öllum deildarkeppnum Englands og Wales sem ekki hafði náð tveggja stafa tölu í markaskorun.

Dominic Calvert-Lewin jafnaði metin fyrir Everton í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir að Wayne Rooney lét verja frá sér víti, en Calvert-Lewin var fyrstur allra á frákastið.

Eftir að Gylfi hafði komið Everton yfir innsiglaði fyrirliðinn Rooney svo sigurinn. Aftur dæmdi Jonathan Moss vítaspyrnu á Swansea, í þetta skipti virtist brotið þó eiga sér stað utan teigs og því hefði víti ekki átt að vera dæmt. 

En Rooney brást ekki bogalistin tvisvar í röð og Everton fór með 3-1 sigur.

Með sigrinum fer Everton upp í 9. sæti deildarinnar með 25 stig. Swansea er enn á botninum, fjórum stigum frá því að komast upp úr fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira