Enski boltinn

Vinnusemi og óeigingirni: Svona hefur Gylfi snúið dæminu við hjá Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er duglegur að sinna varnarvinnunni.
Gylfi Þór Sigurðsson er duglegur að sinna varnarvinnunni. vísir/getty
Eftir rólega byrjun hefur Gylfi Þór Sigurðsson náð sér betur á strik í síðustu leikjum Everton.

Gylfi hefur skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar í síðustu sex leikjum Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann verður væntanlega á sínum stað í byrjunarliðinu þegar Everton tekur á móti hans gömlu félögum í Swansea City í kvöld.

Blaðamennirnir Sam Carroll og David Prentice fara í löngu máli yfir breytinguna á frammistöðu Gylfa í síðustu leikjum í grein sem birtist á Liverpool Echo í dag.

Þeir segja að þótt Gylfi sé hetja á Íslandi og í Swansea hafi hann verið misskilinn hjá Everton og 45 milljóna punda verðmiðinn hafi haft greinileg áhrif á hann.

Carroll og Prentice segja að þegar verst gekk hjá Gylfa hafi verið eins og Tottenham-bölvunin hafi fylgt honum til Everton.

Þeir segja hins vegar að snúningspunkturinn hafi komið í 2-2 jafntefli Everton og Crystal Palace fyrir mánuði. Gylfi lagði upp annað mark Everton í leiknum og hefur haldið uppteknum hætti síðan þá.

Carroll og Prentice segja að mörk og stoðsendingar gefi ekki rétta mynd af Gylfa sem leikmanni og það sé heldur ekki það sem stuðningsmenn Everton kunni mest að meta við íslenska landsliðsmanninn. Það sé vinnusemin og óeigingirnin.

Í greininni er bent á að á síðasta tímabili hafi enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hlaupið meira en Gylfi og hann sé að skila svipuðum hlaupatölum í vetur.

Carroll og Prentice ljúka greininni á að segja að Gylfi hafi unnið stuðningsmenn Everton á sitt bann með því að setja þarfir liðsins ofar sínum eigin.

Greinina má lesa með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Mun Gylfi refsa sínu gamla liði?

Gylfi Þór Sigurðsson er enn að komast í gang hjá nýju félagi og mætir í kvöld gamla félaginu sínu sem saknar hann sárt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×