Erlent

Fangar á lúsarlaunum slökkva elda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki fylgir sögunni hvort slökkviliðsmennirnir á þessari mynd séu fangar eður ei.
Ekki fylgir sögunni hvort slökkviliðsmennirnir á þessari mynd séu fangar eður ei. Vísir/Getty
Slökkviliðsmaður lést í skógareldunum sem nú geisa í Ventura og Santa Barbara-sýslum í Kaliforníuríki. Haft er eftir slökkviliðsstjóranum Ken Pimlott á vef breska ríkisútvarpsins að maðurinn hafi verið 32 ára gamall, átt eitt barn og að hann og eiginkona hans hafi átt von á öðru barni.

Hinn látni hafi verið í hópi þeirra slökkviliðsmanna sem reynir nú að ráða niðurlögum eldsins Tómasar sem er einn af sex gríðarstóru eldunum sem nú leika lausum hala í ríkinu. Að sögn slökkviliðsstjórans vinna 8144 slökkviliðsmenn að því að slökkva eldinn og njóta þeir liðsinnis 30 þyrla og sex flugvéla. Fjölmargir þessara slökkviliðsmanna eru fangar sem fá greidda 2 dali, eða um 210 krónur, í laun á dag. Launagreiðslan hækkar um 100 krónur fyrir hverja klukkustund sem þeir eru að slökkva elda.

Fátt virðist benda til þess að Tómas muni slokkna af sjálfsdáðum. Sterkir vindar og lítill raki gera slökkviðliðsmönnum erfitt fyrir.

Tómas hefur nú farið yfir um 981 ferkílómetra landsvæði sem gerir hann að fjórða stærsta eld í sögu Kaliforníu. Það samanber samanlögðu flatarmáli stórborganna New York og Parísar. Rúmlega 900 byggingar hafa orðið eldinum að bráð, þar af um 729 heimili. Tvær íbúðablokkir hafa brunnið til grunna sem og tvö hótel og um 18 verslanir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×