Erlent

Uppnám í Alabama

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Doug Jones var holdgervingur hamingjunnar á kosningafundi sínum í nótt.
Doug Jones var holdgervingur hamingjunnar á kosningafundi sínum í nótt. Vísir/AFP
Demókratinn Doug Jones fór með sigur af hólmi í kosningum sem fram fóru í gær um laust sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Alabamaríki. Hann hlaut 51 prósent atkvæða gegn 49 prósentum mótframbjóðanda síns.

Þetta kom nokkuð á óvart því demókrati hefur ekki setið á þingi fyrir ríkið í heil 25 ár og kusu íbúar Alabama repúblikanann Donald Trump með nokkrum yfirburðum í síðustu forsetakosningum.

Jones var reyndar að etja kappi við einn umdeildasta stjórnmálamann landsins. Roy Moore hafði verið sakaður ítrekað um kynferðislegt áreiti í garð ungra kvenna og jafnvel barna auk þess sem skoðanir hans teljast lengst til hægri í bandarískum stjórnmálum. Trump forseti studdi Moore í baráttunni en allt kom fyrir ekki og Jones vann.

Sjá einnig: Ásakanir um kynferðislegt samband við táningsstúlku hleypa óvæntu lífi í kosningar í Alabama

Þrátt fyrir að um 99 prósent atkvæða hafa verið talin og að allt bendi til sigurs Jones neitar Moore að játa sig sigraðan. Hann sagði stuðningsmönnum sínum í gær að þrátt fyrir að hann og framboð sitt hafi fengið ósanngjarna gagnrýni á síðustu mánuðum ættu þeir ekki að gefast upp. Munurinn á milli frambjóðendanna væri svo lítill að enn væri möguleiki á endurtalningu.

Þó svo að Moore neiti að játa ósigur sinn hefur Bandaríkjaforseti sent Doug Jones hamingjuóskir á Twitter. Hann segir jafnframt að Repúblikanir þurfi ekki að örvænta, þeir muni fá annað tækifæri mjög fljótlega.


Tengdar fréttir

Trump lýsir yfir stuðningi við Moore

Fjöldi kvenna hafa á síðustu vikum sakað frambjóðanda Repúblikana til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Alabama um að hafa áreitt þær kynferðislega á áttunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×