Erlent

Austurríkismenn blása af reykingabann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ólíkt flestum Evrópulöndum getur fólk reykt inni á matsölustöðum í Austurríki undir ákveðnum kringumstæðum.
Ólíkt flestum Evrópulöndum getur fólk reykt inni á matsölustöðum í Austurríki undir ákveðnum kringumstæðum. Vísir/AP
Austurríski Frelsisflokkurinn hefur lýst því hátíðlega yfir að hætt verði við fyrirhugað reykingabann á matsölustöðum og knæpum þar í landi, sem taka átti gildi árið 2018.

Formaður flokksins, Heinz-Christian Strache, sagði að ákvörðunin væri liður í yfirstandandi samningaviðræðum Frelsisflokksins og Þjóðarflokksins (OVP) um meirihlutasamstarf eftir kosningarnar í landinu í október.

„Ég er stoltur af þessari frábæru lausn sem hefur jafnt hagsmuni reykingamanna, veitingamanna sem og hinna reyklausu í heiðri,“ sagði Strache í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum. „Valfrelsið lifir áfram. Rekstrargrundvöllur veitingastaða (sérstaklega minni staða) hefur verið tryggður. Þúsundum starfa, sem áður voru í hættu, hefur verið bjargað,“ bætti reykingamaðurinn Strache við. 

Fyrirhugað bann var samþykkt árið 2015 af þáverandi stjórnarflokknum, OVP og Jafnaðarmannaflokknum, og átti það að taka gildi í maí næstkomandi.

Þó að hið algjöra bann muni ekki taka gildi verða reglur þó lítillega hertar; t.a.m. verður áfram gert ráð fyrir sérstökum reyksvæðum á veitingastöðum og knæpum. Þangað má enginn sem ekki hefur náð 18 ára aldri koma. Að sama skapi verða reykingar í bílum bannaðar ef einhver undir 18 ára aldri er í bifreiðinni og þá verður tóbakskaupaaldur hækkaður úr 16 í 18 ár.

Haft er eftir heilbrigðisráðherra landsins á vef Guardian að niðurstöðurnar séu stórt skref afturábak fyrir lýðheilsu Austurríkismanna. Heitir ráðherrann, sem var úr röðum jafnaðarmanna, harðri stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili.


Tengdar fréttir

Vann með þjóðernishyggju að vopni

Þegar Sebastian Kurz var kjörinn formaður ungliðahreyfingar Þjóðarflokksins í Austurríki árið 2009, þá 23 ára gamall, grunaði hann eflaust ekki að innan áratugar myndi hann leiða flokk sinn til kosningasigurs og verða þannig afar líklegur til að setjast á kanslarastól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×