Erlent

Vill senda menn aftur til tunglsins og svo til Mars

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill senda geimfara aftur til tunglsins og því næst til Mars. Þetta tilkynnti Trump við athöfn í Hvíta húsinu í dag þar sem hann fól Robert M. Lightfoot, starfandi yfirmanni Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, að leiða verkefnið.

Nýrri tilskipun forsetans, sem kallast Space Policy Directive-1, er ætlað að beina NASA aftur að þeirri grunnstefnu að kanna geiminn, samkvæmt Trump, og staðfesta forystu Bandaríkjanna í geimnum. Enginn hefur lent á tunglinu frá árinu 1972.

„Að þessu sinni munum við ekki bara stinga niður fána og skilja eftir fótspor okkar. Við munum byggja grunn að ferð til Mars og mögulega einhvern tímann til margra annarra heima,“ sagði Trump.

Samkvæmt frétt NPR er það þó erfiðara en að segja það fyrir Bandaríkin að senda menn til tunglsins. NASA á ekki lengur geimfar sem getur borið menn síðan notkun geimskutlnanna var hætt árið 2011. Geimfarar sem ferðast til geimstöðvarinnar eru sendir þangað í rússneskum geimförum.



Búist er við því að einkafyrirtækið eins og SpaceX og Boeing muni jafnvel senda menn til geimstöðvarinnar á næsta ári.

NASA hefur þó unnið að smíði nýrrar geimflaugar í um tíu ár. Til stendur að framkvæma tilraunaskot árið 2019 og senda ómannað far á braut um tunglið og til baka.

Nokkrir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hafa kallað eftir því að snúa aftur til tunglsins og jafnvel byggja þar bækistöð. Nægir fjármunir hafa þó ekki fengist til verksins hingað til. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort Hvíta húsið og NASA muni leita til þingsins til að fjármagna verkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×