Erlent

Maduro sakar Portúgal um skinkuskort

Atli Ísleifsson skrifar
„Við erum svöng,“ hrópuðu mótmælendur fyrir utan ríkisreknar matvöruverslanir í Caracas í gær.
„Við erum svöng,“ hrópuðu mótmælendur fyrir utan ríkisreknar matvöruverslanir í Caracas í gær. Vísir/AFP
Nicolás Maduro, forseti Venesúela, hefur sakað Portúgal um að stolið jólunum af íbúum landsins. Maduro hafði lofað að útvega sex milljónum venesúelskra heimila skinku til að njóta um jólin en nú er ljóst að forsetinn stóð ekki við gefin loforð.

Í frétt Reuters kemur fram að Maduro kenni Portúgali um. Stjórnvöld í Velesúela höfðu pantað skinkuna frá Portúgal en sendingarnar skiluðu sér hins vegar ekki. Portúgölsk stjórnvöld hafna ásökunum forsetans.

„Við búum við markaðshagkerfi,“ segir portúgalski utanríkisráðherrann Augusto Santos Silva. „Útflutningurinn er mál fyrirtækjanna.“ Portúgalska skinkuframleiðandinn Raporal bendir hins vegar á að stjórnvöld í Venesúela skuldi nú þegar 40 milljónir evra, um fimm milljarða króna, fyrir skinkusendingu síðasta árs.

Fjölmenn mótmæli áttu sér stað í venesúelsku höfuðborginni Caracas í gær. „Við erum svöng,“ hrópuðu mótmælendur fyrir utan ríkisreknar matvöruverslanir.

Venesúela glímir við gríðarlega verðbólgu, mikinn vöruskort og ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×