Innlent

Segja sig úr ASÍ og Sjómannasambandinu

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Einar segir vel hægt að lifa utan ASÍ og Sjómannasambandsins.
Einar segir vel hægt að lifa utan ASÍ og Sjómannasambandsins. Vísir/Vilhelm
Félagsmenn Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur hafa í hyggju að segja sig úr Alþýðusambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands eftir afgerandi kosningu í allsherjaratkvæðagreiðslu sem fram fór nýverið. 94 prósent félagsmanna sem greiddu atkvæði kusu með úrsögn.

Einar Hannes Harðarson, formaður félagsins, segir afstöðuna afgerandi og að ASÍ hafi ekki unnið nægilega vel með sjómönnum.

Sjómenn höfnuðu síðasta vetur kjarasamningum og fóru í verkfall. Í kjölfarið var leitað til ASÍ og þar óskað eftir úthlutun vegna verkfallsins en þeirri beiðni var hafnað.

Grasrót félagsins fór því fram á úrsögn bæði úr ASÍ og Sjómannasambandi Íslands sem í dag verður að veruleika. Einar og varaformaður félagsins eru þessa stundina að skrifa upp úrsagnarbréf sem afhent verður ASÍ og Sjómannasambandi Íslands seinna í dag.

Einar segir vel hægt að lifa utan ASÍ og Sjómannasambandsins, það hafi Sjómannafélag Íslands til að mynda sýnt og sannað.

Hann segir að með breytingunum sé meirihluti sjómanna kominn utan Sjómannasambandsins.

„Þeir tala nú fyrir minnihluta sjómanna,“ segir Einar að lokum.


Tengdar fréttir

Verkfalli allra sjómanna frestað

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur undirrituðu nýjan kjarasamning til tveggja ára nú í kvöld.

Sjómannadeilan leyst

Sjómenn og útgerðarmenn skrifa undir nýjan kjarasamning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×