Innlent

Róbóti lætur hálmi rigna yfir nautin á Sandhóli á hverjum degi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það er unun að sjá hvað nautgripunum á bænum Sandhóli í Meðallandi í Skaftárhreppi líður vel í eldishúsinu sínu. Ástæðan er sú að þau liggja á hálmi og fá hálm yfir sig á hverjum degi úr hálmróbóta líkt og um snjóbað væri að ræða.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá hálmróbótann að störfum inni í eldishúsinu á bænum Sandhóli. Húsið sem var tekið í notkun síðasta vor var byggt í þeim tilgangi að ala þar upp naut til nautakjötsframleiðslu. Þegar húsið verður komið í fulla notkun verða þar um 300 nautgripir. Gripirnir eru aldir upp á heilfóðri sem er allt meira og minna ræktað á bænum. Hálmurinn slær í gegn hjá nautunum.

„Hann fer um fjósið tvisvar á sólarhring og setur hálm í stíurnar. Það mun vera lykillinn að þessu að vera með hálminn, að hann fari nógu þétt og lítið magn í einu,“ segir Hörður Davíð Björgvinsson, bústjóri, um róbótann.

„Og þú sérð það nú hvað gripirnir fíla þetta vel að fá yfir sig bað af hálmi þrisvar á dag. Þeir sækjast í það að liggja undir hálminum, að fá tilbreytingu í lífið hjá sér.“

Hörður og Arndís Jóhanna Harðardóttir bústjóri segja mikla eftirspurn eftir íslensku nautakjöti.

„Það allavega vantar enn þá nautakjöt og meðan að má ekki flytja mikið inn, sem verður vonandi ekki í framtíðinni, að þá vantar íslenskt nautakjöt alveg í stórum stíl,“ segir Arndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×