Viðskipti innlent

Fjárfestingin í kísilveri United Silicon verstu viðskipti ársins

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
"Þegar er búið að afskrifa 5 milljarða, það á eftir að afskrifa marga til viðbótar og eigandinn tapar 200 milljónum króna á mánuði á verksmiðju sem er ekki í rekstri,“ segir einn álitsgjafi um fjárfestingu Arion banka í kísilveri United Silicon.
"Þegar er búið að afskrifa 5 milljarða, það á eftir að afskrifa marga til viðbótar og eigandinn tapar 200 milljónum króna á mánuði á verksmiðju sem er ekki í rekstri,“ segir einn álitsgjafi um fjárfestingu Arion banka í kísilveri United Silicon. Vísir/Anton Brink
Fjárfesting Arion banka og lífeyrissjóða, þar af þriggja sjóða í stýringu bankans, í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík fær þann vafasama heiður að vera verstu viðskipti ársins 2017 að mati dómnefndar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.

„Þetta eru ekki bara verstu viðskipti ársins heldur mesti skandallinn frá fjármálahruninu. Ég vona innilega að þeir sem bera ábyrgð á fjárfestingum í þessu ágæta verkefni líti í eigin barm, axli ábyrgð gagnvart sjálfum sér og finni sér eitthvað annað að gera en að fjárfesta fyrir annarra manna fé,“ segir einn dómnefndarmaður Markaðarins.

Annar segir útskýringar á valinu óþarfar: „Þetta hlýtur að vera óumdeilt og skýrir sig sjálft.“ Enn einn segir stein ekki hafa staðið yfir steini. „Það er engu líkara en að menn hafi verið blindaðir af að klára dílinn. Viðvörunarflögg, sem eru augljós eftir á, voru virt að vettugi.“

Einn úr dómnefndinni bendir á að saga kísilversins hafi verið samfelld sorgarsaga. „Kísilverið átti að vera það stærsta í heiminum en eftir stendur – nú rúmum þremur árum eftir að fyrsta skóflustungan var tekin – að Arion banki og þrír lífeyrissjóðir í stýringu bankans hafa þurft að taka á sig níðþungt fjárhagslegt högg vegna eintómra vandræða kísilversins. Ábyrgð Arion banka, sem aðalfjárfestis kísilversins, er þung,“ segir sá hinn sami.

Allt á afturfótunum

Eins og kunnugt er hefur verið slökkt á ofni verksmiðjunnar og framleiðsla legið niðri frá því í lok ágústmánaðar þegar Umhverfisstofnun ákvað að stöðva starfsemi kísilversins. Ríflega eitt ár er síðan verksmiðjan var ræst en frá þeim tíma hefur hvorki gengið né rekið. Tvívegis hefur komið upp eldur í verksmiðjunni og þá hafa hundruð kvartana borist Umhverfis­stofnun vegna lyktarmengunar frá kísilverinu.

Verksmiðjan fékk heimild til greiðslustöðvunar um miðjan ágústmánuð en hún gildir til 22. janúar. Gert er ráð fyrir því að það taki einhverja mánuði að koma verksmiðjunni í þannig stand að hægt verði að hefja þar framleiðslu á kísilmálmi. Arion banki, sem er stærsti hluthafi kísilversins og var í ofanálag alltumlykjandi í fjármögnun hennar, hefur sagt að það þurfi að leggja til „verulega fjármuni“ til að fullklára verksmiðjuna en samkvæmt heimildum Markaðarins hleypur sú upphæð á milljörðum króna. Ekki er útilokað að United Silicon verði sett í þrot þegar greiðslustöðvunartímabili félagsins lýkur.





Magnús Garðarsson er stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon.Vísir/Eyþór
Bankinn hefur þegar afskrifað 4,8 milljarða króna af lánveitingu sinni til kísilversins, en útistandandi skuldbinding nemur um 5,4 milljörðum sem eru um 2,4 prósent af eigin fé bankans. Greint var frá því í Markaðinum í nóvember að kostnaður vegna reksturs United Silicon hafi að jafnaði numið í kringum 200 milljónir króna í hverjum mánuði frá því að kísilverið fékk heimild til greiðslustöðvunar.

Þrír lífeyrissjóðir í stýringu bankans – Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Eftirlaunasjóður Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands – fjárfestu auk þess í kísilverinu fyrir alls 1.375 milljónir króna og þá hefur Festa lífeyrissjóður fært niður 875 milljóna króna fjárfestingu sína.

Arion banki kærði Magnús Garðarsson, fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon, til héraðssaksóknara í haust vegna gruns um refsiverða háttsemi. Magnús hefur mótmælt þeim ásökunum og sagt þær „rangar og tilhæfulausar“.

„Algjörlega skelfilegt“

„Ég skil ekki hvernig ákvörðunin um að fara alla leið með lánveitingu, fjárfestingu og sjóði í stýringu inn í eitt og sama verkefnið gengur upp innan við tíu árum eftir hrun,“ segir einn úr dómnefnd Markaðarins og bætir við: „Þetta er andhverfa þess sem lærðist í bankahruninu. Það er svo margt sem lítur út fyrir að vera brotið í ferlinu og ekki hjálpa meint svik forstjórans til.“

„Þetta eru algjörlega skelfileg viðskipti, bæði fyrir fjárfesta sem lögðu fram eigið fé og bankann sem tapaði lánsfénu,“ nefnir annar.

„Þetta eru verstu viðskipti ársins og áratugarins,“ segir enn einn álitsgjafi. „Þegar er búið að afskrifa 5 milljarða, það á eftir að afskrifa marga til viðbótar og eigandinn tapar 200 milljónum króna á mánuði á verksmiðju sem er ekki í rekstri.“





 

 

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×