Skoðun

180.000 króna rafmagnsreikningur

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Nett sería á svalirnar þarf hvorki að vera dýr né fyrirferðarmikil en er ljómandi innlegg í hátíðirnar og baráttuna við myrkrið. Jólaljós draga vissulega úr áhrifum myrkasta skammdegisins en það er þó hægt að ganga of langt. Bandaríkjamaður að nafni Clark Griswold arkaði mun lengra en það árið 1989 þegar hann þakti húsið sitt í úthverfi Chicagoborgar með 25.000 hvítum ljósaperum, nágrönnunum til mikillar gremju.

10 kílóvatta gaman

Detti einhverjum hugulsömum Íslendingi í hug að gera slíkt hið sama er mikilvægt að muna eftir rafmagnsreikningnum. Þó perurnar verði eflaust rándýrar og uppsetningin tímafrek, myndu perur á borð við þær sem settar voru upp í umræddri kvikmynd, Christmas Vacation eftir John Hughes, eyða um það bil 10 kílóvöttum og þá er mælirinn í kjallaranum farinn að snúast ansi hratt.

Muna að spara!

Verði perurnar látnar lýsa allan sólarhringinn í heilan mánuð (minna má það nú varla vera) má áætla að reikningurinn verði um 180.560 krónur. Til að spara fyrir því þarf fjölskyldan að muna að stilla mánaðalegan sparnað að upphæð 15.000 krónur í netbankanum.

En LED?

En er eitthvað að marka þessa orkunotkun nú þegar flestir hafa skipt yfir í ljósdíóður (LED ljós)? Vissulega lítur dæmið allt öðruvísi út og orkureikningurinn fer niður fyrir 20.000 krónur. Hins vegar kosta LED perur um fimmfalt meira en þær gömlu, en ættu þó að endast mun lengur.

Þeir sem ekki hafa enn misst þráðinn mega að sjálfsögðu reyna að reikna dæmið til enda og samspil stofnkostnaðar, endingar og orkunotkunar, en þá mætti endilega gera ráð fyrir myrkvunargluggatjöldum fyrir grannana í leiðinni.

Hofundur er fræðslustjóri Íslandsbanka. 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×