Innlent

Ísland líklega dýrasta land í heimi

Ferðamenn segja verðlagið hátt á Íslandi.
Ferðamenn segja verðlagið hátt á Íslandi.
Ísland er sennilega orðið dýrasta land í heimi sökum mikillar styrkingar krónunnar og er hið svokallaða bjórgengi hennar sérstaklega hátt. Bjórinn hér á landi er níu sinnum dýrari en í Prag og tvöfalt dýrari en í London. Til að setja þetta í samhengi má benda á að verðlag á Íslandi er í dag um 24% hærra en í Noregi og er þetta algjör viðsnúningur fyrir tilstilli gengisbreytinga.

En er Ísland dýrasta land í heimi?

„Það er svona eiginlega allt sem bendir til þess. Meðalneysluverð hér er allavega orðið hærra en víðast hvar í Evrópu og í raun og veru alls staðar í Evrópu sem hægt að skoða samanburðarhæf gögn um. En að sama skapi eru laun á Íslandi orðin ein þau allra hæstu í heimi. Hvort sem það eru heildarlaun á mánuði eða jafnvel bara á vinnustund," segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka.

Hröð styrking krónunnar á síðusta ári er líklega einsdæmi en sambærilega þróun er að minnsta kosti ekki að finna frá árinu 1961. Pundið er nú um helmingi ódýrara en í ársbyrjun 2013 og evran er þriðjungi ódýrari. Eitt mælitæki er hið svokallaða bjórgengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal en í lok maí var hvergi dýrari bjór að finna en á Íslandi. Í Reykjavík kostar stór bjór um 1.200 krónur en í Kaupmannahöfn er meðalverðið um 650 krónur. Þetta er eitthvað sem hefur ekki farið fram hjá ferðamönnum.

„Áfengi er talsvert dýrt. Flest annað er ekki svo slæmt," segir Johnny, ferðamaður frá Ástralíu í samtali við fréttastofu.

„Þetta er kannski 40-50% hærra en í Þýskalandi. En þetta er í lagi. Dóttur okkar finnst bananar góðir og verð á þeim er hið sama og í Þýskalandi. En kjöt er t.d. mjög dýrt," segir Alex, ferðamaður frá Þýskalandi. 

„Fiskur er dýr og það er dálítið skrýtið því hér er jú svo mikið af fiski. Það er einkennilegt að hann sé svona dýr," segir Michael Bears, ferðamaður frá Þýskalandi.

Greiningardeild Arion banka telur að krónan geti hæglega styrkst meira en til lengdar ræður hagkerfið líklega ekki við það án þess að eitthvað láti undan.

„Kannski er hún bara búin að styrkjast jafn mikið og hún getur nú þegar. Það er ómögulegt að segja og fer svolítið eftir því hvernig væntingarnar eru. Um leið og fólk trúir því að krónan geti ekki styrkst meira hættir hún að styrkjast. Það þarf í rauninni ekki meira," segir Konráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×