Innlent

Rök Hæstaréttar ófullnægjandi í meiðyrðamáli Gillzeneggers

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sem Ingi birti á Instagram-síðu sinni og varð til þess að Egill fór í mál.
Myndin sem Ingi birti á Instagram-síðu sinni og varð til þess að Egill fór í mál.
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) taldi rökstuðning Hæstaréttar í svokölluðu „Fuck you rapist bastard“-máli vera ófullnægjandi. Íslenska ríkið var í gær dæmt af dómstólnum til að greiða Agli Einarssyni bætur vegna þessa.

Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í árslok 2014. Í málinu krafðist Egill þess að Ingi Kristján Sigurmarsson yrði dæmdur fyrir ærumeiðingar. Ingi hafði birt mynd af Agli, sem áður birtist á forsíðu tímaritsins Monitor, á Instagram-reikningi sínum þar sem orðið „aumingi“ hafði verið ritað á myndina. Fyrir neðan myndina stóð „Fuck you rapist bastard“ en skömmu áður en myndin birtist hafði nauðgunarmál gegn Agli verið fellt niður.

Hæstiréttur sýknaði Inga af kröfum Egils þar sem ummælin hefðu falið í sér gildisdóm, fúkyrði í óvæginni þjóðfélagslegri umræðu sem Egill hafði átt frumkvæði að, en ekki staðhæfingu um staðreynd.

Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild HÍ.vísir/eyþór
Í dómi MDE er fallist á þá niðurstöðu Hæstaréttar að Egill væri opinber persóna og hafi sjálfviljugur tekið þátt í opinberri þjóðfélagsumræðu um málefnið. Því hefði Ingi notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um efnið. Hins vegar fannst MDE Hæstiréttur brjóta gegn Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) með því að rökstyðja ekki frekar hví ummælin teldust gildisdómur en ekki staðhæfing um staðreynd. Aðeins hafi verið litið á málið í heild og fallist á rökstuðning héraðsdóms. Þá enn fremur sagt að einstaklingar, þó þeir séu þekktar persónur sem taki þátt í heitri opinberri umræðu, njóti friðhelgi einkalífs og eigi að bera þá alvarlegum sökum verði það að eiga sér stoð í raunveruleikanum.

„Það sem ríður baggamuninn er aðgreiningin á staðreyndum og gildisdómum. MDE telur þetta ekki nógu sannfærandi röksemdir fyrir því, í fyrsta lagi hafi þetta verið gildis­dómur og öðru lagi, að því gefnu að þetta sé gildisdómur, að það séu nægjanlegar undirliggjandi staðreyndir,“ segir Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

Eiríkur segir að eitt sinn hafi MDE lagst í fulla endurskoðun á því hvort takmarkanir á tjáningarfrelsinu hafi verið réttlætanlegar. Í seinni tíð hafi framkvæmdin hins vegar snúist frekar um það hvort dómstólar breyti þeim viðmiðum sem MDE hefur mótað. Sé það gert hafi þeir nokkuð ríkt svigrúm til mats í hverju máli. Afar erfitt sé hins vegar að segja til um hver niðurstaða MDE hefði verið ef rökstuðningur Hæstaréttar, að um gildisdóm hafi verið að ræða, hefði verið meiri.

„Það liggur ekki fyrir hvernig sá rökstuðningur hefði litið út,“ segir Eiríkur. „Þetta er afar fín lína á milli gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir og oft örðugt að fella mál í annan hvorn flokkinn.“

„Íslenska ríkið hefði tapað málinu þó Hæstiréttur hefði fært meiri rök fyrir því að um gildisdóm væri að ræða. Í mínum huga er alveg sama hvað rétturinn hefði sagt, þau rök hefðu ekki breytt því að þetta er staðhæfing um staðreynd,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Egils.


Tengdar fréttir

Íslenska ríkið braut á mannréttindum Egils

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í máli Egils Einarssonar, betur þekktur sem Gillzenegger, gegn Inga Kristjáni Sigurmarssyni hafi verið brot á áttundu grein mannréttindasáttmálans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×