Innlent

Þrír af fimm sýknaðir í umfangsmiklu fíkniefnamáli: Ríkið greiðir milljónir í sakarkostnað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ræktunaraðstaðan var sett upp við Bygggarða á Seltjarnarnesi.
Ræktunaraðstaðan var sett upp við Bygggarða á Seltjarnarnesi. vísir/loftmyndir.is
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði á föstudag þrjá karlmenn af fimm af ákæru um að hafa staðið í umfangsmikilli kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði við Bygggarða 4 á Seltjarnarnesi. Tveir mannanna voru sakfelldir, þó aðeins fyrir hluta af því sem ákært var fyrir en málið er hluti af stærra fíkniefnamáli sem skipt var upp fyrir dómstólum. Milljónasakarkostnaður fellur á ríkið vegna málsins.

Mennirnir fimm voru ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa annars vegar sett upp eða látið setja upp rækturnarstöðu fyrir kannabisplöntur. Þeir áttu svo að hafa skorið plönturnar eða látið skera þær niður þannig að úr urðu um 13 kíló af maríjúana, að því er segir í ákæru. Þá voru þeir einnig ákærðir fyrir að rækta 152 kannabisplöntur í húsnæðinu.

Samkvæmt dómi héraðsdóms er sannað með játningu tveggja ákærðu að þeir hafi staðið að því að setja upp ræktunaraðstöðu fyrir kannabisplöntur í húsnæðinu. Ekki er sannað að aðrir hafi komið að því og þá er jafnframt ósannað að fimmmenningarnir hafi ræktað eða látið rækta ótilgreindan fjölda kannabisplantna í sölu- og dreifingarskyni. Þá er einnig ósannað að mennirnir hafi skorið eða látið skera niður plönturnar þannig að úr urðu 13 kíló af marijúana.

Gögn málsins styðji ekki ákæruefnið

Í dómnum segir að ekki hafi verið lagt hald á neinar plöntur samkvæmt ákæruliðnum þó að í gögnum sé lýst niðurklipptu rusli sem fannst í haug í Bygggörðum 4. Lögreglan lagði hins vegar ekki hald á það sem var í haugnum né rannsakaði það frekar.

Að auki kemur fram í dómnum að ekkert liggi fyrir um það hvort í raun hafi verið unnt að fá 13 kíló af marijúana af þeim afklipptu plöntum sem fundust í ruslahaug á staðnum en voru ekki rannsakaðar og þá er heldur ekki upplýst hvað á að hafa orðið af þessum 13 kílóum af marijúana sem talað er um í ákæru.

 

Fyrir dómi voru raktar herbergishlustanir sem gerðar voru hjá einum hinna ákærðu og Skype-samskipti tveggja annarra ákærðu. Segir í dómnum að þessi gögn varpi engu ljósi á sakarefnið annað en að geta sér eitthvað til.

Svo segir að gögn málsins styðji ekki ákæruefnið á þann veg að hægt sé að telja sök sannaða gegn neitun ákærðu að öðru leyti en rakið hefur verið varðandi sakfellingu tveggja af fimm fyrir að hafa sett upp ræktunaraðstöðu.

Ekki dæmdir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot

Aðeins einn mannanna var síðan sakfelldur fyrir að hafa ræktað 152 kannabisplöntur en hann játaði ræktunina skýlaust fyrir dómi. Allir aðrir neituðu sök og voru hvorki gögn né framburðir annarra í málinu til þess fallnir að sanna sök þeirra. Voru þeir því sýknaðir.

Mennirnir voru allir ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot samkvæmt 173. grein a) almennra hegningarlaga en þeir tveir sem sakfelldir voru voru ekki taldir hafa brotið það alvarlega af sér að dæma ætti þá á grundvelli þeirrar lagagreinar. Þeir voru því dæmdir á grundvelli laga um ávana-og fíkniefni.

Maðurinn sem sakfelldur var fyrir að hafa bæði komið upp ræktunaraðstöðunni og að hafa ræktað plönturnar 152 var dæmdur í 10 mánaða fangelsi. Þar af eru 7 mánuðir skilorðsbundnir.

Hann var jafnframt dæmdur til þess að greiða sakarkostnað ákæruvaldsins, rúma milljón króna, og ¾ hluta málsvarnarlauna verjanda síns á móti ríkinu en launin námu alls tæpum 1,7 milljónum króna. Þá var hann dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns á rannsóknarstigi, tæpar 700 þúsund krónur.

Hinn maðurinn sem einnig var sakfelldur í málinu var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða ¼ af málsvarnarlaunum verjanda síns á móti ríkinu en launin námu alls tæplega 1,8 milljónum króna.

Sakarkostnaður þeirra sem voru svo sýknaðir í málinu greiðist allur úr ríkissjóði, alls um fimm milljónir króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×