Enski boltinn

Sanchez vill rúmar 50 milljónir á viku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hefur Sanchez leikið sinn síðasta leik í treyju Arsenal?
Hefur Sanchez leikið sinn síðasta leik í treyju Arsenal? Vísir/Getty
Alexis Sanchez er sagður vilja fá 400 þúsund pund í vikulaun ef hann ætli að vera áfram hjá Arsenal.

Sanchez er nú þegar búinn að hafna tilboði frá Arsenal sem hljóðaði upp á 300 þúsund pund. Láti Arsenal eftir kröfum Sanchez verður hann langlaunahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar. Paul Pogba, leikmaður Mancester United, er launahæstur eins og er með 290 þúsund pund á viku.

Arsenal leikur ekki í Meistaradeild Evrópu í vetur, sem er sagt vera aðalástæðan fyrir því að Sanchez vilji yfirgefa herbúðir Arsenal. Manchester City er sagt hafa augastað á hinum 28 ára Sanchez og er félagið að undirbúa tilboð í leikmanninn upp á 60 milljónir punda samkvæmt heimildum breskra fjölmiðla.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, vill gera allt sem hann getur til þess að halda miðjumanninum knáa.

„Alexis er atvinnumaður og hann skilar sínu fyrir okkur þangað til hann á endanum yfirgefur félagið,“ sagði Wenger.

Arsenal mæta Liverpool í stórleik þriðju umferðar ensku úrvalsdeildarinnar á morgun. Fjölmiðlar í Bretlandi telja ágætar líkur á að Sanchez spili fyrir Arsenal í þeim leik, en hann hefur ekkert komið við sögu á tímabilinu til þessa vegna meiðsla.

„Ég tek það ekki með inn í reikninginn hver samningstaða leikmanna er þegar ég vel byrjunarliðin,“ sagði Wenger.

Leikur Liverpool og Arsenal á Anfield verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun klukkan 14:50.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×