Enski boltinn

Draumamark Bradys tryggði Burnley stig gegn toppliðinu | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Burnley og Chelsea skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust á Turf Moor í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea er nú komið með 10 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar 13 umferðir eru eftir.

Pedro Rodríguez kom Chelsea yfir strax á 7. mínútu eftir góðan undirbúning Victors Moses.

Burnley vann sig inn í leikinn eftir þetta og á 24. mínútu jafnaði Robbie Brady metin með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu. Þetta var fyrsta mark Írans fyrir Burnley.

Tólf mínútum síðar komst Matthew Lowton í dauðafæri en Thibaut Courtois varði vel. Belginn stóri varði svo aftur vel frá Andre Gray í upphafi seinni hálfleiks.

Chelsea fékk fá færi í seinni hálfleik og ógnaði lítið. Lokatölur því 1-1 í hörkuleik. Jóhann Berg Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk Burnley.

Þetta er aðeins þriðji deildarleikurinn frá 1. október sem Chelsea vinnur ekki. Á þessum kafla hefur liðið unnið 16 leiki, gert tvö jafntefli og aðeins tapað einum leik.

Burnley heldur áfram að safna stigum á heimavelli en 29 af 30 stigum liðsins hafa komið á Turf Moor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×