Erlent

Leiðtogar ESB standa við Íranssamninginn óháð því sem Trump gerir

Kjartan Kjartansson skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, slógu á létta strengi við upphaf leiðtogafundar ESB í Brussel í dag.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, slógu á létta strengi við upphaf leiðtogafundar ESB í Brussel í dag. Vísir/AFP
Kjarnorkusamningur stórveldanna við Íran mun áfram njóta stuðnings leiðtoga Evrópusambandsríkja óháð því hvort að Bandaríkin muni segja sig frá honum. Sambandið undirbýr þó að gagnrýna Írani harðar fyrir eldflaugatilraunir sínar.

Búist er við því að Evrópuleiðtogarnir lýsi yfir fullum stuðningi við samninginn eftir viðræður þeirra í Brussel í dag samkvæmt drögum sem Reuters-fréttastofan hefur séð.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið afar gagnrýninni á samkomulagið sem náðist á milli Írana annars vegar og Bandaríkjanna, Bretlands, Rússlands, Frakklands, Kína og Þýskalands auk Evrópusambandsins hins vegar. Það fól í sér að Íranar hættu kjarnorkuáætlun sinni gegn því að stórveldin felldu niður refsiaðgerðir vegna hennar.

Vilja ekki vera algerlega á öndverðum meiði við Bandaríkin

Í síðustu viku lýsti Trump því yfir að hann myndi ekki leggja blessun sína yfir hann áfram. Bandaríkjaforseti þarf að votta samninginn á þriggja mánaða fresti við þingið. Framtíð samningsins er í höndum þingsins sem þarf að ákveða hvort það vilji endurvekja refsiaðgerðirnar þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að Íranir hafi brotið gegn skilmálum samningsins.

Evrópuríki hafa reynt að bjarga samkomulaginu en leiðtogar Írans hafa lýst því að það deyi drottni sínum ef Bandaríkin segja skilið við það.

Til þess að koma til móts við afstöðu Bandaríkjastjórnar eru Evrópuríkin hins vegar sögð íhuga að herða gagnrýni sína á eldflaugatilraunir Írana sem þau telja að grafi undan stöðugleika í heimshlutanum.

„Við viljum verja kjarnorkusamningin og við stöndum við kjarnorkusamninginn og við uppfyllum kjarnorkusamninginn. Við viljum hins vegar heldur ekki vera algerlega á öndverðum meiði við Bandaríkin,“ hefur Reuters eftir embættismanni ESB.


Tengdar fréttir

Trump hættir stuðningi embættisins við kjarnorkusamninginn

Fastlega er búist við því að Donald Trump Bandaríkjaforseti dragi til baka stuðning forsetaembættisins við kjarnorkusamninginn sem gerður var við Íran og leggi til aðrar og harðari leiðir í samskiptum við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×