Lífið

Sigmundur rekur í löngu máli hvers vegna hann þolir ekki ananas á pizzur

Birgir Olgeirsson skrifar
"Ávextir sem notaðir eru til að framleiða safa eiga ekki heima á pizzu,“ segir Sigmundur Davið
"Ávextir sem notaðir eru til að framleiða safa eiga ekki heima á pizzu,“ segir Sigmundur Davið Vísir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur blandað sér í stóra „ananas-á-pizzu“ málið. Líkt og flestir vita sprengdi Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, það mál upp þegar hann sagði í góðu gríni að ef hann gæti þá myndi hann banna ananas á pizzur.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, steig fram skömmu síðar og sagðist vera hlynntur ananas á pizzum en það fékk Sigmund Davíð til að lýsa yfir sinni skoðun.

Á Facebook-síðu sinni segist Sigmundur hafa verið hrifinn af ananas frá barnæsku og þótti ananasdjús bestur djúsa.

„En ananas á alls ekki heima á pizzu, ekki frekar en sýrður rjómi á sushi,“ segir Sigmundur og dregur síðan fram fjóra liði máli sínu til stuðnings.

Hann segir ananas um margt líkan sítrusávöxtum eins og appelsínum og sítrónum og enginn myndi panta pizzu með slíkum ávöxtum.

„Ávextir sem notaðir eru til að framleiða safa eiga ekki heima á pizzu,“ skrifar Sigmundur.

Hann segir súrsæta ananasbragðið ekki renna saman við annað bragð á pizzunni og virkar eins og truflandi aðskotaefni.

Þá vill hann meina að hitastig ananasbitanna sé iðulega á skjön við restina af pizzunni og að hann geti valdið brunasárum. „Svo kólnar ananasinn og verður kaldari en restin af pizzunni (og auðvitað slepjulegri).“

Hann segir auk þess að þegar ananas sé hitaður þá leki súr safi úr honum þannig að hver einasti biti mengar út frá sér.

„Á heimilinu ríkir ekki einhugur um ananasmálið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að fara yfir þessi atriði. Það hefur verið reynt að leysa málið með því að panta bara ananas á helminginn en það er ekki fullkomin lausn því safinn lekur yfir á hreina helminginn og skemmir hann að hluta,“ skrifar Sigmundur.

Hann segir áhuga forseta Íslands að banna ananas á pizzum því skiljanlegan.

„Það ætti alla vega við um bann við ananas á stórum pizzum. Hugsanleg málamiðlun væri sú að fólki yrði leyft að panta sér einstaklingspizzur með ananas ef þær yrðu afgreiddar á afmörkuðum svæðum á pizzustöðum. Svo væri náttúrulega hægt að leysa málið með því að borða bara íslenskan mat.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.