Erlent

Hundruð almennra borgara fastir í átökum á Filippseyjum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hörð átök geysa nú á sunnanverðum Filippseyjum.
Hörð átök geysa nú á sunnanverðum Filippseyjum. Vísir/EPA
Hundruð almennra borgara sitja fastir í borginni Marawi á sunnanverðum Filippseyjum á eyjum Mindanao þar sem herinn berst nú við uppreisnarmenn sem eru hliðhollir hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. BBC greinir frá.

Yfirvöld höfðu vonast til þess að geta aðstoðað um þúsund íbúa við að flýja borgina á meðan að vopnahléi stóð á milli hersins og uppreisnarmanna.

Vopnahléið átti að vera í fjóra tíma en stóð ekki lengur en eina klukkustund og náðu yfirvöld einungis að bjarga um 130 manns frá borginni.

Átökin hafa verið mannskæð og hafa 170 manns látið lífið, þar á meðal 20 almennir borgarar. Ekki er víst hvor hliðin rauf vopnahléið.

Talið er að um 2000 borgarar séu enn fastir í borginni og rær herinn nú öllum árum að því að endurheimta á sitt vald borgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×