Handbolti

Sjáðu allt það helsta úr stórsigri FH á móti Fjölni | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
FH er áfram á miklum skriði í Olís-deild karla í handbolta en Hafnafjarðarliðið vann Fjölni, 41-29, í frestuðum leik úr sjöttu umferð í Kaplakrika í gærkvöldi.

FH er nú búið að vinna alla sjö leiki sína í deildinni og er með þriggja stiga forskot á toppnum. Þetta var þriðji leikur liðsins í röð sem það vinnur með meira en tíu marka mun.

Hafnafjarðarliðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17-14, en vann þann síðari, 24-15, og leikinn með tólf marka mun, 41-29.

Einar Rafn Eiðsson, leikmaður FH, var markahæstur á vellinum með níu mörk úr tólf skotum en auk þess átti hann sex stoðsendingar og skapaði átta færi fyrir félaga sína.  Einar fékk hæstu einkunn allra hjá HB Statz fyrir leikinn eða 9,6.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði átta mörk úr níu skotum og Ásbjörn Friðriksson skoraði sjö mörk úr níu skotum og gaf þrjár stoðsendingar. Jón Bjarni Ólafsson átti góðan leik í vörninni og var með sjö löglegar stöðvanir.

Ágúst Elí Björgvinsson varði 16 skot af 39 og var með 41 prósent markvörslu og næst besti leikmaður vallarins með 8,9 í HB Statz-einkunn.

Kristján Örn Kristjánsson skoraði níu mörk úr 16 skotum fyrir Fjölni og gaf þrjár stoðsendingar og var með 8,4 í einkunn hjá Fjölni.

Í spilaranum hér að ofan má sjá allt það helsta úr leiknum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×