Viðskipti innlent

Hagnaður Arion banka minnkar um helming milli ára

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Afkoman var viðunandi.
Afkoman var viðunandi. Vísir/Pjetur
Hagnaður Arion banka á árinu 2016 nam 21,7 milljörðum króna samanborið við 49,7 milljarða árið 2015. Hagnaður bankans minnkar því um rúmlega helming á milli ára. Afkoman var viðunandi og í takt við væntingar, segir í tilkynningu frá Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka.

Í tilkynningunni kemur fram að grunnstarfsemi bankans stendur vel og að fjárhagsstaða bankans heldur áfram að styrkjast. Arion banki sé í dag alhliða fjármálafyrirtæki með sterka stöðu bæði á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði og lánasafn bankans endurspegli það vel.

Árið 2016 hafi einkennst af fjárfestingum til framtíðar í þjónustu bankans. Kaup bankans á tryggingafélaginu Verði eru gott dæmi um það en þau gengu í gegn á árinu. Þar með bætast skaðatryggingar við þjónustuframboð bankans.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram gagnrýni frá Höskuldi á stjórnvöld, fyrir að framlengja bankaskattinn, sem hafi átt að vera tímabundinn en sé nú hluti af langtíma ríkisfjármálaáætlun. Lagt er áherslu á að mikilvægt að þessi skattlagning verði endurskoðuð.

Bent er á að sambærilegur skattur leggst ekki á aðrar innlendar atvinnugreinar né á erlenda banka sem umsvif hafi hér á landi og lána til íslenskra fyrirtækja. Því sé hér á ferðinni sértæk skattlagning sem geri bönkum erfitt fyrir um vik í samkeppni, bæði á innlendum markaði en einnig í samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki á íslenskum markaði.

Bankar keppi á innlendum markaði við lífeyrissjóði þegar kemur að veitingu íbúðalána en lífeyrissjóðir greiði hvorki tekjuskatt né fjársýslu- eða bankaskatt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×