Erlent

Gert að greiða 24 milljónir vegna nektarmynda af Katrínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vilhjálmur og Katrín.
Vilhjálmur og Katrín. Vísir/EPA
Frönsku tímariti hefur verið gert að greiða tæpar 24 milljónir króna vegna nektarmynda sem birtar voru af Katrínu, hertogaynjunni af Cambridge, árið 2012. Þetta er úrskurður dómstóls í Frakklandi.

Katrín og Vilhjálmur höfðu farið fram á eina og hálfa milljón evra í skaðabætur, sem samsvarar um 187 milljónum króna. Tímaritinu Closer var hins vegar gert að greiða hundrað þúsund evrur í skaðabætur. Það er um 12,5 milljónir króna.

Þar að auki var ritstjóra tímaritsins og útgefanda hvorum gert að greiða 45 þúsund evrur í sekt. Það er hámarksrefsingin við broti sem þessu samvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

Lögmaður tímaritsins ánægður

Lögmaður Closer segist ánægður með niðurstöðuna, en talsmaður bresku konungsfjölskyldunnar vildi ekki tjá sig um málið og sagði von á tilkynningu í dag.

Umræddar myndir voru teknar í suðurhluta Frakklands í september 2012 þar sem Katrín og Vilhjálmur voru í fríi. Myndir af Katrínu þar sem hún var ber að ofan við sundlaug náðust með stórri aðdráttarlinsu.

Konungsfjölskyldan brást reið við þessum myndum og neituðu fjölmiðlar í Bretlandi að kaupa þær til birtingar. Vilhjálmur og Katrín höfðuð mál gegn Closer fyrir að brjóta á friðhelgi einkalífs þeirra og fengu lögbann gegn frekari birtingu myndanna.

Í bréfi frá Vilhjálmi, sem lesið var uppi fyrir dómi, sagði hann að atvikið hefði minnt sig á hvernig ljósmyndarar eltu móður sína Díönu prinsessu á röndum.

Starfsmönnum Closer var einnig gert að afhenda konungsfjölskyldunni allar útgáfur af myndunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×