Viðskipti innlent

Icelandair skoðar Asíuflug af alvöru

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Icelandair skoðar að hefja beint flug til Asíu. Vísir/Vilhelm
Icelandair skoðar að hefja beint flug til Asíu. Vísir/Vilhelm
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group
„Það er í skoðun hjá okkur að fljúga til Asíu og ef við horfum fram í tímann hef ég trú á því að við eigum eftir að sjá félagið færa sig í þá áttina,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, um mögulega innreið félagsins á Asíumarkað.

Björgólfur segir félagið meðal annars hafa skoðað mögulega áfangastaði í Kína, Japan og Ísrael, en að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um að hefja flug þangað.

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, sagði í samtali við Fréttablaðið í júní að flugfélagið hygðist hefja beint flug til Asíu á næsta ári. Félagið ynni að því að ákveða hvaða áfangastaðir í álfunni yrðu fyrir valinu. Þó liggur fyrir að það mun hefja áætlunarflug til Tel Aviv í Ísrael í september.

Björgólfur segir að Icelandair sé í góðu samstarfi við flugfélög sem starfa í Asíu og margir Asíubúar komi til landsins frá Evrópu með félaginu.

„Snúna málið í þessu er vissulega það að heimamarkaðurinn er mjög lítill. Við erum bara 330 þúsund hér á landi. En við sjáum vissulega tækifæri í því að hefja Asíuflug og höfum verið að skoða það í allnokkur ár. Ég hef trú á því að við eigum eftir að sjá breytingar í þá veru á næstu misserum og árum.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×