Erlent

Trump og Pútín funduðu óformlega í kvöldverðarboði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vladimir Putin og Donald Trump á formlegum fundi sínum á ráðstefnu G20-ríkja.
Vladimir Putin og Donald Trump á formlegum fundi sínum á ráðstefnu G20-ríkja. Vísir/AFP
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hitti rússneska kollega sinn, Vladimir Pútín, tvisvar á ráðstefnu G20-ríkja í Hamborg í Þýskalandi fyrr í þessum mánuði.

Seinni fundurinn var haldinn við kvöldverðarboð fyrir þjóðarleiðtoga, nokkrum klukkutímum eftir að forsetarnir tveir hittust á formlegum fundi.

Talsmenn Hvíta hússins hafa ekki gefið upp hvað var rætt á seinni fundinum, aðeins að hann hafi átt sér stað, og engin opinber gögn eru til um það sem forsetunum fór á milli. Í frétt New York Times segir að aðrir þjóðarleiðtogar, sem urðu vitni að samtalinu, hafi sérstaklega gert athugasemdir við hegðun Bandaríkjaforseta. Einkennilegt þykir að hann láti svo mikið bera á samræðum við rússneskan kollega sinn.

Trump mætti einn og Pútín í fylgd túlks

Fyrri fundur forsetanna einkenndist af umræðum um meint afskipti Rússa af forsetakosningum Bandaríkjanna. Pútín neitaði öllum ásökunum og talið barst að því búnu að vopnahléi í Sýrlandi.

Í frétt Washington Post segir að um miðbik kvöldverðarins hafi Trump staðið upp úr sæti sínu og sest í stól við hlið Pútíns. Bandaríkjaforseti mætti einn á þennan óformlega fund og þá var Pútín sjálfur aðeins í fylgd opinbers túlks.

Fundurinn er sagður hafa staðið yfir í um eina klukkustund. Þá vekja þessar einkasamræður forsetanna einnig upp spurningar um eðli sambands þeirra, sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu.

Framganga Donalds Trump á fyrsta fundi hans og Pútín í Hamborg sætti mikilli gagnrýni fyrr í þessum mánuði. Trump sagðist í tísti sínu um formlega fundinn að hann og Pútín hefðu rætt að koma á fót öflugri, sameiginlegri netöryggissveit ríkjanna.


Tengdar fréttir

Reiði og hneykslan eftir fund G20 ríkja

Um 20 þúsund lögreglumenn stóðu vaktina á fundi 20 stærstu efnahagsríkja í heiminum. Um 480 lögreglumenn hlutu meiðsli í mótmælum vegna fundarins. Kanslari Þýskalands þurfti að verja val sitt á fundarstaðnum opinberlega.

Trump og Pútín mætast í dag

Samkvæmt rússenskum fjölmiðlum munu Pútín og Trump hittast eftir hádegi í dag en fundur þeirra er talinn munu standa yfir í um klukkutíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×