Lífið

Vill að fólk sé óhrætt við orðið „píka“

Guðný Hrönn skrifar
Linda hefur undanfarið dundað sér við að teikna píkur.
Linda hefur undanfarið dundað sér við að teikna píkur. vísir/ANTON BRINK
Linda Jó­hanns­dótt­ir,vöruhönnuður og eigandi Pastelpaper, opnar á morgun sýningu með teikningum af píkum. Með sýningunni vill Linda meðal annars vekja fólk til umhugsunar um orðið "píka“ sem virðist trufla margt fólk.

„Sýning sem heitir Píka verður opnuð á morgun. Ég er búin að ganga með þessa hugmynd í maganum lengi,“ segir Linda um teikningasýningu sína. „Hugmyndin kviknaði út frá þeirri margþættu merkingu sem orðið „píka“ hefur, miðað við orðið „typpi“. Og hversu sorglegt það sé að fólk eigi oft erfitt með að segja „píka“.“

„Ef við þurfum að skammast okkar fyrir orðið, þá er kannski ekkert skrýtið að sumar konur skammist sín fyrir píkuna sjálfa,“ útskýrir Linda sem vill með sýningunni vinna gegn þeirri neikvæðu merkingu sem hefur hengt sig við orðið „píka“. „Ég vil að fólk geti sagt „píka“ án þess að blána og að við hættum að nota orðið sem eitthvert blótsyrði.“

Teikningar eftir Lindu.
Myndirnar eru abstraktverk af píkum, unnar í blandaðri tækni og engar tvær myndir eru eins. „Með teikningunum langar mig sýna píkur í allri sinni fegurð og fjölbreytileika.“

„Það er grátlegt að heyra konur tala illu um píkuna sína, þá gjarnan um að þeim þyki píkan sín ljót, og bara píkur yfirhöfuð.“

„Fegrunaraðgerðir á píkum hafa líka aukist mikið á undanförnum árum, svokallaðar skapabarmaaðgerðir. Þannig að við lifum á skrýtnum tímum, það er eitt að fara í aðgerð vegna þess að eitthvað er að, en þegar eingöngu er um fegrunar­inngrip að ræða, er það eitthvað sem er að mínu mati raunverulegt áhyggjuefni. Hvaðan eru konur að fá myndir af hinni fullkomnu píku, hver er fyrirmyndin?“

Hluti ágóða af sölu myndanna mun renna til UN Women, spurð nánar út í það segir Linda: „Mann langar auðvitað að láta gott af sér leiða og ég valdi UN Women af því að starf þeirra tengist beint inn í þennan málstað sem ég er að vinna með. Á sama tíma og íslenskar konur fara sjálfviljugar og láta skera og „lagfæra“ á sér kynfærin þá er UN Women að hjálpa konum úti í heimi sem eru settar í aðgerðir á kynfærum sínum gegn vilja sínum. Þessi andstæða er hræðileg,“ segir Linda.

Þess má geta að sýningin Píka verður opnuð klukkan 18.00 á morgun og er opin út mánudaginn næsta á Hverfisgötu 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.