Innlent

Sextán handteknir í Bretlandi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Machester Arena þar sem Salman Abedi gerði sjálfsmorðssprengjuárás í síðustu viku.
Machester Arena þar sem Salman Abedi gerði sjálfsmorðssprengjuárás í síðustu viku. Vísir/AFP
Lögreglan í Bretlandi handtók í dag sextánda manninn í tengslum við rannsóknina á sprengjuárásinni í Manchester í síðustu viku.

Tveimur hefur verið sleppt og eru því fjórtán í haldi lögreglu. Lögregluyfirvöld birtu í dag tvær nýjar myndir af árásarmanninum Salman Abedi.

Önnur myndin er úr öryggismyndavél í verslun þar sem Abedi sést kaupa vörur nokkrum klukkustundum fyrir árásina. Á hinni myndinni er Abedi með bláa ferðatösku sem lögregla hefur ekki fundið og er fólk beðið um að vara sig á henni ef hún finnst. Myndin er tekin á milli 18. og 22. maí en lögregla tók fram að þessi taska var ekki notuð í árásinni.

Breska leyniþjónustan MI5 hefur hafið rannsókn á viðbrögðum sínum við þremur ábendingum sem henni bárust um Salman Abedi vegna öfgafullra skoðana hans. Þrátt fyrir það leggur innanríkisráðherra áherslu á að rannsóknin á sjálfu ódæðinu sé í algjörum forgangi.

„Mitt forgangsmál er að gefa öryggissveitum og lögreglu það svigrúm sem þarf til að halda aðgerðinni áfram. Munið að aðgerðin er enn í gangi, við erum enn að handtaka fólk. Leyniþjónustan MI5 getur litið til baka og komist að því hvað gerðist í fortíðinni, en á þessari stundu einbeiti ég mér að því að ljúka aðgerðinni með árangursríkum hætti," segir Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×