Viðskipti innlent

Eyþór Arnalds hagnast um 60 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Eyþór Arnalds er meðal annars stærsti hluthafi útgáfufélags Morgunblaðsins.
Eyþór Arnalds er meðal annars stærsti hluthafi útgáfufélags Morgunblaðsins. Vísir/Ernir
Eignarhaldsfélagið Ramses, sem er í eigu Eyþórs Arnalds fjárfestis, hagnaðist um rúmlega 60 milljónir króna í fyrra borið saman við hagnað upp á 492 milljónir á árinu 2015.

Eyþór er meðal annars stærsti einstaki hluthafi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, með tæplega 23 prósenta hlut en hann kom inn í hluthafahóp félagsins í apríl á þessu ári.

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi Ramses er hagnaður félagsins að mestu tilkominn vegna tekna af hlutabréfum. Heildareignir í árslok 2016 námu tæplega 706 milljónum, en þar af voru lán til tengdra aðila um 280 milljónir. Eigið fé félagsins var liðlega 707 milljónir og lagði stjórn þess til að greiddur yrði arður til hluthafa að fjárhæð 50 milljónir.

Á meðal fjárfestinga sem Eyþór hefur komið að á undanförnum árum er kísilver Thorsil í Helguvík og þá keypti hann ferðaþjónustufyrirtækið Special Tours í Reykjavík, sem gerir út báta til hvalaskoðunar í Faxaflóa, vorið 2016.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×